149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:29]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir. Þetta er ágætishugsun, þ.e. hvað við gætum notað fjármunina í. Í þeirri nefnd sem ég sit í, velferðarnefnd Alþingis, höfum við undanfarið fengið gesti sem kalla allir eftir auknu fjármagni. Ég get nefnt hjúkrunarheimili, ég get nefnt heilsugæslu, ég get nefnt fjármuni til geðheilbrigðisþjónustu og síðast en alls ekki síst hvernig við getum leiðrétt kjör þeirra hópa sem ekki hafa samningsstöðu. Mér dettur þetta í hug þar sem kjaraviðræður virðast núna vera komnar í hnút. Það eru hópar eins og öryrkjar og svo sá hópur sem hefur búið við krónu á móti krónu skerðingu sem virðast eiga að sitja eftir eina ferðina enn. Það er dálítið furðulegt að ekki sé reynt að huga að öllum þeim þáttum þegar farið er yfir þá stöðu og það sem við stöndum frammi fyrir.

Ég vona að eftir þessa umræðu, þegar málið fer aftur inn til hv. efnahags- og viðskiptanefndar, verði fenginn gestur, að seðlabankastjóri verði kallaður fyrir nefndina til að reyna að útskýra hvað er hér á ferðinni.