149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:15]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir að koma hingað til umræðunnar en ég hefði gjarnan viljað fá hann fyrr hér inn. Mig langar að koma inn á tvö atriði og byrja á því er snýr að þeirri afstöðu hans sem hefur komið fram, að nú sé ekki uppi sú staða að aðgerðirnar, planið, aftari endinn af planinu sem lagt var af stað með 2015, að þær aðstæður séu ekki uppi í dag sem réttlæta það. Staðan er sú að í lok árs 2016, fyrir rétt rúmum tveimur árum, kom Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, með álit í tengslum við tvö mál sem til stofnunarinnar hafði verið vísað þar sem segir, með leyfi forseta:

„Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur lokið athugun á tveimur málum vegna kvartana varðandi íslenska löggjöf um eign á aflandskrónum. Lögin sem kvartanirnar snúa að eru liður í aðgerðum íslenskra stjórnvalda til að losa fjármagnshöft. ESA telur lögin vera í samræmi við EES-samninginn.“

Þetta er fyrir tveimur árum. Vissulega hefur ástandið batnað þótt nú séu blikur á lofti frá þeim tíma, en það er ekki sú grundvallarbreyting sem hefur orðið á þeim tveimur árum sem segir að menn kasti frá sér þeirri stöðu sem römmuð var inn árið 2015 og var partur af heildarplaninu. Það er algjörlega fráleitt því að þegar ESA gefur út þetta álit og kemst að þessari niðurstöðu er öllum ljóst að úrvinnsla málsins mun taka nokkurn tíma. Það er ekki verið að horfa út frá punktstöðu í lok árs 2016. Ég þekki ekki nokkurn mann sem teldi að mál hefðu þróast með þeim hætti á þessum tveimur árum, með tilliti til þess að ESA hlýtur að hafa verið að horfa til þess að úrlausnin tæki tíma, að slík gjörbreyting sé orðin á aðstæðum að staða okkar sé orðin engin.

Í þessu samhengi langar mig að spyrja hv. þingmann (Forseti hringir.) hvort afstaða hans mótist af því að hann telji að við myndum tapa málinu fyrir rétti yrði að okkur sótt á þeim forsendum.