149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ræða hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar áðan var fyrir margra hluta sakir allsérstök. Ég stóð í það minnsta í þeirri meiningu að mögulega gæti ræðan liðkað fyrir umræðunum og svarað einhverjum af þeim spurningum sem lagðar voru fram af þingmönnum sem ekki hafa fengið tækifæri til að ræða þetta við formann nefndarinnar áður.

Mig langar hins vegar að velta því upp við hv. þingmann hvort það sé rétt eftir tekið hjá mér að hvergi í ræðu hv. formanns nefndarinnar hafi hann þrætt fyrir það eða reynt að neita því að ef farið hefði verið eftir þeirri leið sem lagt var af stað með 2015 værum við að fá mun betri útkomu í dag. Þá værum við að fá hærra verð, meiri fjármuni en með þessu útspili Seðlabankans og formanns nefndarinnar sem virðast vera komnir í eina sæng. Þess vegna spyr ég hvort það sé rétt eftir tekið að hv. þingmaður, formaður nefndarinnar, hafi alls ekki þrætt fyrir að hægt hefði verið að gera miklu betur.

Hv. þm. Óli Björn Kárason sagði hér í ræðu að það væri best að gera þetta svona. Hann sagði að þetta væri besta leiðin án þess að rökstyðja með nokkrum hætti að hún væri það. Getur hv. þingmaður svarað því hvers vegna þetta geti mögulega verið besta leiðin þegar á sama tíma er vitað að önnur leið hefði skilað meiri fjármunum til ríkissjóðs? Ég kem að öðru í seinna andsvari.