149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi spurningu um hver eigi að segja til um hvenær aðstæður séu ekki lengur fyrir hendi liggur beinast við að líta til samanburðar sem hv. þm. Bergþór Ólason nefndi áðan. Berum stöðuna saman við sumarið 2016. Þá var mun bjartara fram undan í efnahagslífinu en nú er. Útlitið hvað varðaði gjaldeyrisöflun, t.d. vegna ferðaþjónustu, var töluvert bjartara en nú en gengi krónunnar reyndar á svipuðum slóðum og það er einmitt núna. Þá var það mat Seðlabankans að lægsta verðið sem væri hægt að bjóða þessum aflandskrónueigendum, þeim sem myndu spila með, væri 190 kr. Svoleiðis að þegar aðstæður voru í raun jafnvel betri en núna og væntingarnar betri voru aðstæður þannig að Seðlabankinn taldi ekki forsvaranlegt að bjóða lægra verð en 190 kr., enda kynnti bankinn þá að þetta væri í samræmi við það sem lagt var upp með árið 2015. Þá voru menn enn að huga að því að fylgja því plani sem lagt var upp með.

Það er svo sem hægt að svara þessari spurningu um hvenær aðstæður eru fyrir hendi á ýmsan hátt. Ég ætla að bæta við alla vega einu öðru svari. Við höfum heyrt á formanni hv. efnahags- og viðskiptanefndar að hann vitnar mikið í mat kerfisins, einhvers konar markaðsmat og mat kerfisins. Ég get alveg upplýst um það að árið 2015 var mat kerfisins það að aðstæður væru ekki fyrir hendi til að ráðast í þær aðgerðir sem við réðumst í. Ég er reyndar nokkuð viss um að mat kerfisins hefði alltaf verið það að (Forseti hringir.) aðstæður væru ekki fyrir hendi til að ráðast í þær aðgerðir sem svo skiluðu þeim árangri sem menn þekkja.