149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Ég er enn þá mjög hugsi eftir ræðu hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar því að ég taldi að hann myndi varpa betra ljósi á málið sem gerðist svo alls ekki. Það kom þó fram, en kannski ekki nógu skýrt, hjá formanninum sem mun e.t.v. skýra betur hvers konar aðilar það væru sem ættu krónueignirnar sem þarna er um að ræða. Ég náði reyndar ekki að skrifa það algjörlega niður. Hann fullyrti, að ég held, að það væru annars konar aðilar en þessir vogunarsjóðir. En það breytir í sjálfu sér engu hver á þetta. Málið snýst að sjálfsögðu um það hvaða kjör eru í boði. Ef þessir aðilar væru komnir í þá stöðu að þurfa að komast út úr þessu hefði að sjálfsögðu verið gott fyrir ríkissjóð að fá sem mest fyrir það. Það er líka áhugavert að ekki hafi verið þrætt fyrir að það væri hægt að ná betri niðurstöðu en þetta mál gerir ráð fyrir.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Tók hann eftir því einhvers staðar í ræðu formanns efnahags- og viðskiptanefndar að hann rökstyddi hvers vegna hann teldi að það að ljúka málinu með þessum hætti væri best fyrir hagsmuni Íslands, að ljúka þessum hluta málsins með því að fara ekki fram á það verð eða þær tölur sem menn notuðust við 2016 þegar, eins og bent var á, efnahagsástandið var jafnvel betra eða ekki verra en það er í dag? Tók þingmaðurinn eftir því að þetta hefði verið rökstutt með einhverjum hætti?