149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:52]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hún er mjög góð vegna þess að hún skiptir verulegu máli. Að sjálfsögðu hefði átt að ræða þetta mál innan fjárlaganefndar og sérstaklega þegar ræddir voru áhættuþættir við komandi fjármálaáætlun og þá vinnu sem henni fylgir og síðan fjárlagavinnuna almennt. Hér eru gríðarlegir fjármunir í spilunum og eðlilegt að það sé rætt innan nefndarinnar.

Það hefur ekki verið gert og reyndar var það í fyrsta sinn í morgun rætt innan nefndarinnar. Það var vegna þess að sá sem hér stendur var með fyrirspurn. Hagstofan var gestur nefndarinnar í morgun og ég var með fyrirspurn þess efnis hvaða áhrif þeir teldu að það hefði á stöðu krónunnar þegar þessi háa upphæð, 84 milljarðar, fer héðan úr landinu. Svarið var bara það sem stendur í greinargerðinni, gott ef það var ekki vitnað í greinargerðina: Það myndi ekki hafa áhrif.

Það var ekki skýrt frekar og verð ég að segja að það olli mér vonbrigðum. En þetta er það sem ég hef orðið var við innan nefndarinnar hvað þetta stóra mál varðar. Það virðist ekki hafa fengið meiri vigt en þetta, sem vekur náttúrlega ákveðnar spurningar um hvort stjórnvöld séu yfir höfuð meðvituð um hvaða áhrif þetta stóra mál getur haft á efnahagsstjórn landsins, fjármálaáætlun. Hugsanlega er tilefni til þess að taka upp fjármálastefnuna. Það er undarlegt hversu lítið málið hefur verið rætt.