149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þekki hv. þm. Óla Björn Kárason afar vel. Ég man eftir því þegar ég var eitt sumar þræll hjá honum á íþróttavellinum á Sauðárkróki þar sem hann var yfirmaður minn og átti ekki í vandræðum með það þá að rökstyðja hvers vegna við ættum að fara í þau verk sem þar voru. Veit ég að þingmaðurinn á mjög auðvelt með að færa rök fyrir því hvers vegna hann telur mál vera með þessum hætti eða öðrum. Ég held hins vegar að það hafi skort á það í ræðum hans í dag. Það kann vel að vera að það sé vísvitandi gert eða bara að þingmaðurinn telji að þess þurfi ekki. Það er ósköp eðlilegt líka ef menn telja það, en við höfum kallað eftir því. Það að þetta sé hið eina rétta eða það besta sem hægt er að ná fram er eitthvað sem ég er ekki viss um að hafi verið færð rök fyrir.