149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:30]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Hér erum við enn að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og lögum um gjaldeyrismál, aflandskrónulosun og bindingarkyldu á fjármagnsinnstreymi. Þetta mál er búið að vera á dagskrá síðan um klukkan þrjú í gærdag. Umræðan var hér fram á kvöld og fram á nótt og nánast fram í birtingu. Klukkan var að verða hálfsex í morgun þegar fundi var frestað og síðan var málinu haldið áfram í dag, sett á dagskrá þingfundar í dag til að halda áfram að ræða það.

Við höfum verið að reyna að komast að því af hverju þetta mál er unnið með þeirri aðferð sem margoft hefur komið fram að okkur í Miðflokknum hugnast ekki. Við sjáum ekki að hagur þjóðarinnar sé haldinn í heiðri. Við skiljum ekki og höfum spurt af hverju ekki var haldið áfram á þeirri vegferð sem byrjað var á samkvæmt losun fjármagnshafta og gefin út áætlun um í júní 2015. Þar voru stöðugleikaskilyrði og skattur á slitabú fallinna fjármálastofnana höfð í hávegum til þess að þjóðin fengi að njóta þess að fá fjármagn til sín af þeim peningum. Það hefur gengið þangað til núna að við erum ekki með það á hreinu hvort staðið hafi verið að frumvarpinu eins og var gert í þeirri áætlun. Það gerir það ekki og okkur er sagt að við þurfum ekki að hafa áhyggjur en við höfum samt áhyggjur.

Við bundum miklar vonir við það, ég gerði það alla vega, þegar hv. þm. Óli Björn Kárason kom í ræðu í dag, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, að hann gæti varpað ljósi á málið og útskýrt það fyrir okkur en hann sagði að svarið væri í frumvarpinu, við þyrftum bara að lesa greinargerðina. Ég hef lesið greinargerðina. Ég verð að viðurkenna að stundum er ég svolítið lesblindur en félagar mínir í Miðflokknum og ég erum sammála um að í greinargerðinni sé ekki svarið við þeirri spurningu sem við höfum leitað eftir. Það er ekki plan. Það er ekki svar sem segir manni hvernig þessu muni reiða af. Það má geta sér til að þjóðarbúið gæti orðið af 20 milljörðum ef sú leið yrði farin sem þetta frumvarp fjallar um og munar nú um minna. Ekki er samt hægt að fullyrða það. Sú spurning hangir enn þá í loftinu og er ósvarað eftir allan þennan tíma. En af því að við erum seinþreyttir til vandræða höldum við því til streitu.

Hv. þm. Óla Birni Kárasyni varð tíðrætt um stöðu efnahagsmála og spurði okkur þingmenn Miðflokksins af hverju við gætum ekki bara verið glaðir yfir þessu. Þá fær maður á tilfinninguna, af því að hv. þingmaður getur ekki svarað þessum spurningum út í hörgul, að þar sé maðkur í mysunni hvað varðar að hann sé sjálfur ekki alveg með á hreinu hvernig þetta muni fara. Hann talaði líka mikið um breyttar forsendur. Þegar maður fær svona svör (Forseti hringir.) þarf maður að geta í eyðurnar og ég á ekki gott með það í þessu máli. Ég verð að lýsa því yfir að enn þá hef ég ekki breytt skoðun minni á frumvarpinu og hef virkilegar áhyggjur.