150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

viðbrögð við yfirvofandi efnahagsvanda.

[10:39]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Mér þykir gott að heyra að hæstv. forsætisráðherra hyggst ræða við stjórnarandstöðuna og við munum vinna af heilum hug, a.m.k. í Samfylkingunni. Við getum hins vegar ekki lokað augunum fyrir þeirri staðreynd að á einhverra ára tímabili hefur samneyslan verið að veikjast. Velferðarkerfið hefur verið að veikjast burt séð frá einstakri aðgerð upp á síðkastið. Það er mikilvægt að við höldum áfram í þá átt að auka jöfnuð í samfélaginu vegna þess að það mun verða okkur dýrmætt, ekki bara núna í þessum tímabundnu hremmingum heldur líka næst þegar við þurfum að takast á við eitthvað af þessu tagi. Við þurfum að vanda okkur í öllum aðgerðum og draga úr ójöfnuði. En það er ljóst að þetta verður mörgum landsmönnum þungbært. Það er hlutverk okkar þingmanna hérna inni að gera allt sem við getum til að verja fólkið, verja heimilin og verja fyrirtækin í landinu.