150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

matarúthlutanir.

[10:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina en hún snýst í raun um tvennt, annars vegar almennt um stöðu fátæks fólks í samfélaginu, ekki síst þegar á bjátar eins og nú gerir. Það er alveg á hreinu að aðgerðir stjórnvalda verða að miða að því að tryggja félagslegt réttlæti alveg eins og þær hafa gert hingað til. Við skulum ekki gleyma þeim aðgerðum sem stjórnvöld réðust í í fyrra í tengslum við lífskjarasamninga sem allar miðuðu að því að auka hér félagslegan stöðugleika með því að styrkja betur félagslegt húsnæði, breyta skattkerfinu, hækka barnabætur. Með öðrum orðum að auka félagslegan stöðugleika því að efnahagslegur stöðugleiki getur ekki orðið án hins félagslega. Það er mjög mikilvægt að aðgerðir stjórnvalda, eins og ég nefndi áðan, til að mynda vinnumarkaðsaðgerðir og annað slíkt, hafi þetta leiðarljós.

Hvað varðar fyrirspurn hv. þingmanns um Mæðrastyrksnefnd þá tel ég rétt að hæstv. félags- og barnamálaráðherra, sem hefur annast samskipti stjórnvalda við þessi sjálfsprottnu félagasamtök eins og önnur þau sem sinna slíkri aðstoð, muni fara yfir það með þeim hvernig megi tryggja að viðbragðsáætlanir Almannavarna nái líka til þeirrar starfsemi. Ég tel að það sé eitthvað sem er unnt að leysa og ég vænti þess að hæstv. félags- og barnamálaráðherra muni taka þá brýningu sem hér hefur komið fram í dag og fylgja henni eftir strax í dag.