150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

matarúthlutanir.

[10:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég tel rétt að hér komi fram, því að hv. þingmaðurinn spurði sérstaklega eftir því áðan hver fylgdist með heilsu þeirra sem væru í sóttkví, að það er svo að heilsugæslan hefur lista yfir alla þá sem eru í sóttkví og fylgist með heilsu þeirra. (HallM: Ég spurði um heimilislausa.) Já, ég skildi hv. þingmann þannig að hún væri að spyrja um eftirfylgni með heilsu þeirra sem eru í sóttkví og því er þá hér með svarað.

Heilbrigðiskerfið. Við höfum svo sannarlega verið að gefa í þar. Nú síðast á mánudagsmorgun bárust þær ánægjulegu fréttir að skrifað hefði verið undir kjarasamninga sem fela í sér gríðarmiklar breytingar á vaktavinnufyrirkomulagi sem skiptir mestu máli fyrir stéttirnar sem starfa innan heilbrigðiskerfisins. Ég vona að öðrum samningum verði lokið á sömu nótum. Þetta er mesta breyting á þessu fyrirkomulagi í áratugi og tengist nákvæmlega því sem við höfum svo oft rætt í þessum sal sem eru kjör heilbrigðisstétta, ekki síst kvennastétta, þeirra sem vinna innan vaktavinnufyrirkomulags. Þetta er mikið framfaraskref sem þessar þrengingar mega ekki verða til að trufla því að (Forseti hringir.) þegar við horfum á uppbyggingu heilbrigðiskerfisins þá þurfum við að horfa á allt, ekki bara fjárfestingar í steypu heldur líka að manna kerfið með góðu fólki.