151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

aðgerðir til að styrkja stöðu íslensks landbúnaðar.

[15:20]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Staða íslensks landbúnaðar er að ýmsu leyti sterk. Má þar nefna heilbrigði framleiðsluvara, hvort sem um ræðir dýraafurðir eða plöntuafurðir. Einnig er afstaða almennings almennt jákvæð til íslensku framleiðslunnar. Þær ógnir sem helst steðja að landbúnaðinum eru hinir ótrúlegu tollasamningar sem gerðir voru við ESB 2016. Þetta eru og verða væntanlega í framtíðinni talin fáheyrð mistök í viðskiptasamningum. Afleiðingar þessa er gríðarlega aukning á innflutningi tolllausra matvæla til landsins. Til að bregðast við þessu verður að skapa framleiðendum hér á landi sambærileg samkeppnisskilyrði og ríkja í löndum Evrópusambandsins. Í samkeppnislöndunum er t.d. mun meiri stuðningur við kornrækt en hér á landi og mun meiri framkvæmdastyrkir til hagræðingar á framleiðslutækjum. Einnig eru lán til uppbyggingar í landbúnaði með allt öðrum hætti en á Íslandi. Svo er talað um mikla notkun á eiturefnum í landbúnaði og notkun sýklalyfja og þá döpru staðreynd að víða er beinlínis flutt inn mjög ódýrt vinnuafl til uppskerustarfa.

Undanfarna áratugi hafa rannsóknir í þágu landbúnaðarins nánast lagst af. Það hefur eðlilega mjög neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu greinarinnar. Segja má að þessi hluti stuðningsnetsins við landbúnaðinn sé nú nær algerlega munaðarlaus.

Ekki er hægt að nefna slaka samkeppnisstöðu landbúnaðarins án þess að nefna samkeppnisleysi á íslenskum matvörumarkaði og þá aðstöðu sem sú fákeppni hefur gagnvart veikburða úrvinnslufyrirtækjum sem eru nánast hundelt af Samkeppniseftirlitinu á meðan litlar eða engar athugasemdir eru gerðar hvað varðar risana í smásöluverslun. Eftirlit með innflutningi hefur verið í algeru skötulíki, eins og margoft hefur verið bent á. Ýmsar vörur með mjólkurpróteini eru fluttar inn eftirlitslaust og óskráðar.

Verkefnin fram undan eru mörg til að styrkja samkeppnisstöðu landbúnaðarins. Um leið vil ég nefna og undirstrika mikilvægi þess að landbúnaðurinn þróist í takt við tímann og taki þeim breytingum sem eru nauðsynlegar. Við þurfum að skapa hér sanngjarnt og gott umhverfi fyrir alla hugsanlega matvælaframleiðslu, tryggja matvælaöryggi sem fer hönd í hönd með sjálfbærri nýtingu og minna kolefnisfótspori, því að allt snýst þetta á endanum um umhverfið, loftslagið og framtíð okkar allra.