152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[11:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til að vekja athygli hæstv. forseta á atriði sem forseti hlýtur þó að hafa tekið eftir. Hér kom það fram rétt áðan af hálfu hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra að allir ráðherrarnir í ráðherranefnd um efnahagsmál hefðu varað við því sem þeir svo gerðu. Þeir vöruðu hver annan greinilega við og sjálfa sig en gerðu það samt. Ég vek athygli hæstv. forseta á því að þeir sáu ekki ástæðu til að upplýsa þingið. Þeir sáu ekki ástæðu til að upplýsa þingið um þessar áhyggjur sínar, þessar viðvaranir. Létu það nægja að vara sjálfa sig við, án þess þó að bóka neitt um það, en ræddu málið ekki hér á þingi. Það hlýtur að kalla á einhver viðbrögð af hálfu Alþingis þegar ráðherrar í ríkisstjórn fara fram með þessum hætti, vara eindregið við því sem þeir gera en halda þinginu alveg utan við það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)