152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

afstaða ráðherra til söluferlis Íslandsbanka.

[11:59]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Frú forseti. Þingmönnum er heitt í hamsi. Auðvitað er það skiljanlegt að mörgu leyti, enda málið stórt. Mér finnst samt vert að koma hér upp og tala um að það fer ekki saman hljóð og mynd þegar talað er um að það séu einhver stórtíðindi, hvort sem það eru ráðherrar í ríkisstjórn eða einstakir þingmenn, að þeir hafi undir einhverjum kringumstæðum efasemdir um eitthvað sem verið er að taka ákvarðanir um, bara til að vera alveg sanngjarn. Ég efast um ýmislegt sem ég er að gera dagsdaglega hér á þingi en ákvörðunin var tekin svona og við stöndum með henni. Síðan finnst mér það undarlegur málflutningur, sem hér kemur fram, sem snýr að því að ríkisstjórnin hafi tekið sér eitthvert vald eins og kom fram í máli hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar. Ríkisstjórnin situr hér með stuðningi meiri hluta þingsins. Það hefur alveg komið fram. Og talandi um að axla ábyrgð: Auðvitað er það að axla ábyrgð að óska eftir rannsókn á þessu ferli og ég styð það.