152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

afstaða ráðherra til söluferlis Íslandsbanka.

[12:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að viðhorf og nálgun gömlu félaga minna í Sjálfstæðisflokknum, sem hefur endurspeglast hér í dag, er alveg óendanlega dapurleg. Eins og brot á trausti sé ekkert tjón, eins og siðferðisbrot sé ekkert tjón. Það er bara haldið áfram eins og menn hafi ekkert lært. Þegar þetta er viðhorfið og þetta er nálgunin þá kemur mér ekki á óvart að þessi bankasala hafi klúðrast svona stórkostlega, að það hafi verið gengið á traust almennings og inn í ákveðinn sáttmála við þjóðina, enda hefur ríkisstjórnin lýst vantrausti á sjálfa sig, hún hefur hætt við frekari sölu af því að hún gerir sér grein fyrir því að við getum ekki stigið frekari skref áður en við byggjum upp traust. Allt sem hefur verið sagt hér í dag af hálfu ráðherra ríkisstjórnarinnar undirstrikar þá kröfu okkar í stjórnarandstöðunni að við þurfum rannsóknarnefnd einmitt til að velta við öllum steinum. Það hefur verið upplýst hér í dag að hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra segir að ráðherranefndin hafi verið að lýsa yfir efasemdum, ráðherranefndin hafi haft áhyggjur. Við erum að fá þær upplýsingar hér í dag. Það undirstrikar að við þurfum á að halda rannsóknarnefnd sem fer yfir allt þetta ferli.