152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

afstaða ráðherra til söluferlis Íslandsbanka.

[12:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Fyrst bara nokkur orð um orð hv. þm. Jóhanns Friðriks Friðrikssonar hér áðan. Þó að ég beri mikla virðingu fyrir okkur öllum óbreyttum þingmönnum er auðvitað töluverður munur á áhyggjum ráðherra sem situr í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins og er að einkavæða banka samanborið við áhyggjur okkar almennra þingmanna, bara svo því sé haldið til haga. En ég vildi, þó að hæstv. forseti Birgir Ármannsson sé ekki lengur í forsetastóli, biðja hæstv. forseta að framlengja þá spurningu hvort það liggi fyrir hvort hæstv. innviðaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, verði í þinginu á morgun því að ég tel mjög mikilvægt að þingheimi verði sköpuð aðstaða til að eiga orðastað við hæstv. ráðherra í ljósi þess hvað kom fram í samtölum hér (Forseti hringir.) í óundirbúnum fyrirspurnatíma fyrr í dag. Þannig að ég kasta fram þessari spurningu og vænti svars um það (Forseti hringir.) hvort þetta liggur fyrir.