152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[12:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Enn vekur hv. þm. Bergþór Ólason athygli á hlutum hér sem væri mjög freistandi að bregðast við og bæta aðeins við í umræðunni en ég ætla að standast þá freistingu í bili. Ef til vill gefst tækifæri til þess síðar í dag að bregðast við ýmsum þeim atriðum sem hv. þm. Bergþór Ólason hefur nefnt vegna þess að ég er hér að fara yfir ákveðið samhengi, ákveðna heildarmynd í þessum málaflokki. En þrátt fyrir það, forseti, get ég ekki látið hjá líða að benda á hversu merkilegt það er að þetta mál sé hér nú til umræðu í ljósi pólitíska samhengisins. Hér við upphaf þingfundar fór fram nokkur umræða um dagskrá þingsins og einkum það að mál frá hæstv. dómsmálaráðherra, svokallað útlendingamál, væri yfir höfuð komið á dagskrá. Það er nýbúið að bæta því aftast á dagskrána, langt fyrir neðan allt sem getur talist raunhæft að komist til umræðu í dag eða næstu daga. En hvernig stendur á því að þetta mál er sett efst á dagskrána af hálfu ríkisstjórnarinnar á meðan mál sem varðar sama málaflokk en er frá ráðherra hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins er sett neðst á dagskrána þar sem eru litlar líkur á því að það komist að? Og ekki bara það heldur erum við hér í 2. umr. Við erum í meginumræðunni um þetta stóra mál, þessa grundvallarstefnubreytingu í málefnum hælisleitenda. Hitt málið bíður 1. umr. eða réttara sagt a.m.k. þriðju tilraunar til að koma því í 1. umr. Hvernig stendur á því að Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti flokkurinn í ríkisstjórninni, lætur bjóða sér að setja áherslumál Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og hugsanlega Framsóknarmanna, að því marki sem þeir hafa yfir höfuð hugmynd um hvað verið er að leggja til hérna, í efsta sætið en sitt eigið mál, sem hefur beðið miklu lengur og þrír hæstv. dómsmálaráðherrar hafa reynt að koma í gegn, neðst á dagskrána? Af hverju er til að mynda þá ekki a.m.k. lagt til að þessi mál séu rædd saman? Sýnir það ekki hversu veikt Sjálfstæðisflokkurinn telur sig standa í þessu stjórnarsamstarfi að hann þurfi að láta sig hafa allar þær trakteringar sem aðrir flokkar í stjórninni bjóða honum upp á? Mér fannst alla vega svör hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag benda til þess þegar hæstv. ráðherra dró í land með það að hafa séð allt fyrir með hvert myndi stefna með Íslandsbanka en sagði að hæstv. fjármálaráðherra hefði líka varað við því sem hann gerði sjálfur, þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki haft neitt orð á því og raunar verið mjög sáttur, alla vega í opinberum yfirlýsingum um þessi mál.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta í samhengi við þetta mál hér er að þetta eru allt vísbendingar um það sama, að Sjálfstæðisflokkurinn er fyrst og fremst að reyna að halda sjó í þessu stjórnarsamstarfi og heldur áfram að samþykkja eitt og annað sem getur orðið til verulegra vandræða og þar með talið stefnumarkandi hluti á sviði þessa stóra málaflokks, þessa risastóra málaflokks sem gengur ekki aðeins gegn stefnu systurflokka Sjálfstæðisflokksins annars staðar á Norðurlöndunum heldur gengur þvert á stefnu danskra sósíaldemókrata. En allt þetta gleypir Sjálfstæðisflokkurinn til þess eins að halda sjó að því er virðist. En það þarf að skoða þetta mál í þessu samhengi og við þurfum að gera ráð fyrir því að þegar raunveruleg áhrif þess koma í ljós, verði þetta samþykkt, þá muni einhverjir halda því fram að þeir hafi annaðhvort ekki verið upplýstir um raunveruleg áhrif málsins eða haft af því áhyggjur, rétt eins og Íslandsbankamálinu, og kannski varað við en bara ekki talað mikið um það opinberlega, ekki bókað neitt um það, en þeir hafi haft áhyggjur. Ég ætla að spá því að við munum heyra einhverjar slíkar yfirlýsingar verði þetta samþykkt og áhrifin svo koma í ljós.

En ég var búinn að nefna það hér að ég væri að reyna að halda þræði varðandi ákveðið samhengi með þetta stóra viðfangsefni. (Forseti hringir.) — Ég sé að tíminn er liðinn og bið hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.