152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

niðurstöður úttektar á stöðu og áskorunum í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, munnleg skýrsla umhverfis-, orku og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[16:03]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Hér er tíma okkar vel varið. Við erum að ræða niðurstöður úttektar á stöðu og áskorunum í orkumálum. Það sem ég verð að leggja áherslu á í þessari umræðu er mikilvægi þess að náttúruvernd sé höfð að leiðarljósi við allar ákvarðanir sem teknar eru í orkumálum. Við þekkjum af eigin raun og munum hvernig ákvarðanir hafa verið teknar um óafturkræfar aðgerðir á íslenskri náttúru sem, eins og félagi minn, hv. þm. Orri Páll Jóhannsson, nefndi í sinni ræðu, skilja jafnvel heilu samfélögin eftir í sárum þannig að aldrei grói um heilt. Þetta er ekki bara saga fortíðar eins og sum virðast halda. Þetta er staðan enn þann dag í dag hvar íbúar samfélaga horfa skelfingu lostin upp á enn eina aðförina að óspilltri íslenskri náttúru sem er ein af okkar dýrmætu auðlindum. Enn ein atlagan er gerð að víðernum Austurlands með fyrirhugaðri virkjun Geitdalsár í Skriðdal. Hvernig getur þetta verið að gerast, frú forseti? Ég spyr hæstv. ráðherra hvort við sem samfélag höfum ekkert lært, hvort við ætlum í alvörunni að halda áfram á þeirri braut að leggja óspillta íslenska náttúru í rúst og það á Austurlandi sem hvað verst hefur farið út úr þeirri skelfilegu vegferð sem við höfum verið á. Já, og það til þess að mæta orkuskorti meðan um 80% af allri raforku sem framleidd er hérlendis fer til stóriðju.

Samfélagsleg sátt getur falist í því að laga flutningskerfi, nýta betur þá kosti sem þegar hefur verið farið í og raskað hafa landinu, gera áætlun og fylgja eftir með lagasetningu hvernig við viljum haga orkuöfluninni, hvort heldur er með vatni eða vindi, láta þetta spila saman þannig að ekki þurfi að ganga svona freklega að íslenskri náttúru og ekki síður að íslenskum almenningi. Þegar þessum markmiðum er náð er svo grundvallaratriði að sú umframorka sem til verður fari í innlend orkuskipti. Orkuskiptin þurfa að vera réttlát. Það þarf að tryggja orkuskipti í mismunandi geirum samfélagsins en þó alltaf óháð búsetu fólksins eða efnahag þess. Munum bara að eftirspurn eftir orku á ekki að vera það sem haft er að leiðarljósi. Orkueftirspurnin verður aldrei mett. Við getum virkjað hverja sprænu, við getum dritað niður vindmyllum til sjós og lands en á meðan ákvörðunin er sú að stóriðja og stórfyrirtæki eigi forgang þá verður alltaf skortur á orku til góðra verka í þágu fólksins.

Til gamans langar mig að segja að lokum frá því að ég var nýlega stödd í hæsta turni Kristjánsborgarhallar í Kaupmannahöfn hvar forsætisnefnd heimsótti danska þingið. Útsýnið var stórfenglegt en við gátum þó verið nokkuð sammála um að vindmyllur tröllvaxnar sem mölluðu sitt eintóna suð hring eftir hring hvert sem litið var stungu dálítið í augun. Ég spurði kollega mína hvort þetta væri ekki svolítið menningarlegt og vert að horfa til nágrannaþjóðanna eins og í svo mörgu og fylla Kollafjörðinn bara af vindmyllum og jafnvel sjókvíaeldi og leyfa einu sinni óspilltum víðernum Íslands að vera í friði. Það kom reyndar ekki á óvart að engum fannst mikill bragur á því og það er vert að hafa í huga áður en slíkum áformum er troðið ofan í kok á íbúum landsbyggðarinnar. Við getum gert þetta vel, frú forseti, og mig langar að hvetja hæstv. ráðherra áfram til góðra verka. Ég hef verið ánægð með hans störf frá því að hann tók við embætti. Við getum gert þetta í sátt, við getum gert þetta þjóðinni til heilla og íslenskri náttúru en við verðum þá að standa í lappirnar og gera það saman.