153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

hagstjórn Íslands.

[15:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Verðbólgan er komin í tveggja stafa tölu og hefur ekki verið meiri í 14 ár. Staða heimila og lítilla fyrirtækja er að sama skapi að þrengjast mjög. Vinnumarkaðurinn er blessunarlega að þokast að niðurstöðu en eftir situr óneitanlega að ríkisstjórnin hefur verið í dálítilli afneitun gagnvart ástandinu og á meðan er ríkissjóður rekinn með blússandi halla, og það í góðæri. Ákvarðanir ríkisins hafa ýtt undir þenslu því að við sáum að löngu fyrir Covid-faraldurinn voru strax merki um samdrátt. Seðlabankastjóri situr svolítið uppi með sitt eina tæki, sem er stýrivaxtatækið. Aðilar vinnumarkaðarins eru nokkurn veginn búnir að komast að niðurstöðu.

Viðreisn hefur ítrekað varað við þessari þróun á stjórn ríkisfjármála. Við lögðum fram tillögu til að vinna bug á hallanum, við vildum stoppa lánafyllirí ríkissjóðs — ríkisstjórnarflokkarnir greiddu atkvæði gegn því — og við sjáum það að samsetning ríkisstjórnarinnar er svolítið að hamla því að tekið sé á málum. Það var málamiðlun í upphafi sem mjög var greint frá, en um leið er þessi gambítur á okkur öll að verið er að stórauka ríkisútgjöld meðan það er verið að lækka skatta á móti. Þetta er eitruð blanda og við sjáum svolítið niðurstöðurnar í dag. Því er stóra myndin sú að mínu mati að búið er missa svolítið stjórn á hagstjórn landsins og gjaldmiðlinum, enn og aftur. Fyrir vikið greiðir almenningur fyrir það í formi hærri lána og dýrari matarkörfu, hið tvöfalda hagkerfi blómstrar sem aldrei fyrr og að vanda tapa þeir mestu sem minnst eiga.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, af því að ég sé það að hann telur að leiðin muni skýrast við næstu fjármálaáætlun um það hvernig ríkisstjórnin ætlar að takast á við verðbólguna, er ekki plan tilbúið núna? Hann er búinn að vera tíu ár í ráðuneytinu og á að þekkja þetta gangverk ágætlega. Er hæstv. ráðherra til að mynda sammála formanni fjárlaganefndar og þingmanni Vinstri grænna um að hækka skatta núna? Er ríkisstjórnin líka tilbúin að breyta fyrirkomulagi á tollum og lækka verðið á matarkörfunni? (Forseti hringir.) Hvaða hagræðingartillögur hefur ríkisstjórnin núna til þess að koma til móts við heimilin og litlu fyrirtækin í landinu vegna þeirrar óðaverðbólgu sem ríkir nú og þessara miklu vaxtahækkana sem eru ekki hættar?