Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

gjaldtaka vegna nýtingar á vindi, sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til raforkuframleiðslu.

26. mál
[17:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég á það sameiginlegt með Don Kíkóta að mér er hálfilla við vindmyllur en það á einkum við um nútímavindmyllurnar frekar en þær gömlu góðu eins og við sjáum í Hollandi og sums staðar í Danmörku. Kannski ætti ég að gleðjast yfir þessari tillögu, því að hún er til þess fallin að draga aðeins úr því að nútímavindmyllur, sem geta hæglega verið tvöfalt hærri en Hallgrímskirkja, spretti hér upp út um allt, en ég leita lausna til að leiða menn saman. Þetta mál kom reyndar upp nokkrum sinnum í tilraunum formanna stjórnmálaflokkanna til að ná saman um nýja stjórnarskrá eða stjórnarskrárbreytingar varðandi auðlindaákvæði og slíkt. Ég grínaðist nú einhvern tímann með þetta, hvort vindurinn yrði þá skattlagður, en svona eltir raunveruleikinn stundum grínið. Hv. þm. Brynjar Níelsson er að nokkru búinn að svara því sem var tilefni þess að ég ákvað að biðja um andsvar en ég vil gjarnan fá skýrari viðbrögð frá honum. Hann hefur nefnt þetta með sólarljósið og auðvitað gæti það, miðað við þessa tillögu, verið ótækt að landsmenn njóti sólarljóss og d-vítamíns úr því án greiðslu. Hitt veldur mér ekki síður áhyggjum að hv. þingmaður situr hér og andar að sér súrefni algjörlega endurgjaldslaust. Má þá ekki álykta sem svo að verði þessi tillaga samþykkt þá gefi það tilefni til, af því að hv. þingmaður er lögfræðingur, að útvíkka þetta, ekki bara gagnvart sólarljósinu heldur líka gagnvart súrefninu sem er líklega ein mikilvægasta, jafnvel almikilvægasta auðlind okkar Íslendinga, að geta andað. Það hafa menn til þessa gert algjörlega án greiðslu. Verði þessi tillaga samþykkt með vindinn, að hann sé sameiginleg auðlind sem þurfi að greiða fyrir, má ekki álykta sem svo að ekki bara sólarljósið heldur súrefnið hljóti líka að fylgja í kjölfarið? (BN: Þetta er áhugavert.)