Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 71. fundur,  1. mars 2023.

Happdrætti Háskóla Íslands og lög um happdrætti.

92. mál
[18:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands og lögum um happdrætti (bann við rekstri spilakassa). Flutningsmaður er Inga Sæland. Auk mín eru á þessu frumvarpi: Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

I. kafli. Breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, með síðari breytingum breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, með síðari breytingum. Eftirfarandi breytingar verða gerðar á 1. gr. laganna:

a. Orðin „skyndihappdrættis með peningavinningum, svo og“ í 2. mgr. falla brott.

b. 3. mgr. fellur brott.

2. gr. Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi: Ráðherra skal gera samning við Háskóla Íslands um fjármögnun vegna uppbyggingar og viðhalds fasteigna á háskólasvæðinu. Áætlað tekjutap Happdrættis Háskóla Íslands vegna lokunar spilasala árin 2023–2026 skal jafna á móti greiðslum vegna samnings um uppbyggingu og viðhald fasteigna á háskólasvæðinu.

II. kafli. Breyting á lögum um happdrætti, nr. 38/2005, með síðari breytingum.

3. gr. Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi: Ríkissjóður skal greiða hluthöfum Íslandsspila bætur vegna tekjumissis að fjárhæð 1 milljarður kr., á ári hverju, árin 2023–2026. Skal sú greiðsla skiptast þannig að Rauði krossinn á Íslandi fái 64%, Slysavarnafélagið Landsbjörg fái 26,5% og SÁÁ fái 9,5%.

4. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um söfnunarkassa, nr. 73/1994.

Með frumvarpi þessu er lagt til að rekstur spilakassa verði með öllu bannaður. Frumvarp þetta var lagt fram á 151. og 152. löggjafarþingi (62. mál) en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju efnislega óbreytt að dagsetningum undanskildum. Nokkur fjöldi umsagna barst um frumvarpið á 151. löggjafarþingi. Embætti landlæknis, Landssamtökin Þroskahjálp og Samtök áhugafólks um spilafíkn lýstu yfir stuðningi við frumvarpið í umsögnum sínum. Einnig bárust umsagnir frá Landsbjörg, Rauða krossinum og Háskóla Íslands. Rauði krossinn og Landsbjörg lögðu áherslu á það að beðið yrði eftir niðurstöðum starfshóps um happdrætti og fjárhættuspil. Dómsmálaráðuneytið hefur ekki enn þá birt tillögur starfshópsins, en samkvæmt umsögnum átti starfshópurinn að skila tillögum um úrbætur 1. júní 2021. Háskóli Íslands taldi í umsögn sinni að mikilvægt væri að skoða málið heildstætt áður en gerðar yrðu grundvallarbreytingar á lagarammanum.

Fjárhættuspil eru almennt bönnuð á Íslandi. Í almennum hegningarlögum eru ákvæði sem kveða á um bann við fjárhættuspilarekstri og veðmálastarfsemi. Lengi hefur þó tíðkast að veita undanþágur frá þessu banni og heimila góðgerðarfélögum og almannaheillafélögum að starfrækja happdrætti, hlutaveltu, getraunir og spilakassa. Upphaf slíkrar fjáröflunar má rekja til svokallaðra tíkallakassa sem voru notaðir til að fjármagna aðstoð vegna eldgossins í Vestmannaeyjum. Undanfarið hefur umræða skapast um rekstur spilakassa og hvort sú starfsemi sé í raun svo skaðleg að rétt sé að banna hana með öllu. Samtök áhugafólks um spilafíkn (SÁS) hafa undanfarin ár staðið fyrir átakinu „Lokum spilakössum“, eða Lokum.is. Markmiðið er að vekja athygli almennings og stjórnvalda á þeirri skaðsemi sem hlýst af rekstri spilakassa. Á vefsíðu samtakanna má lesa reynslusögur spilafíkla og aðstandenda þeirra. Þær sýna svart á hvítu hversu miklum skaða spilafíkn veldur samfélaginu. Átakið hefur vakið mikil viðbrögð í samfélaginu og hefur strax skilað árangri. Stjórn SÁÁ ákvað árið 2020 að draga sig út úr rekstri Íslandsspila þrátt fyrir vænt tekjutap upp á tugi milljóna króna. Einar Hermannsson, formaður SÁÁ, sagði um ákvörðunina að þeim fyndist það ekki vera þess virði og ekki samræmast gildum SÁÁ að taka þátt í rekstri á spilakössum og vera þátttakandi í Íslandsspilum. Sagði hann afleiðingarnar fyrir SÁÁ beint vera tugmilljóna króna skerðing á sjálfsaflafé en að traust og virðing væri meira virði. Þá hefur Rauði krossinn kallað eftir því að stjórnvöld innleiði svokölluð spilakort. Spilakort koma þá í veg fyrir að hægt sé að eyða umfram tiltekið viðmið í spilakassa á ákveðnu tímabili. SÁS létu framkvæma skoðanakönnun um viðhorf almennings til spilakassa og leiddi hún í ljós að um 86% Íslendinga vilja banna slíkan rekstur. Þá voru 71% aðspurðra ósátt við að starfsemi í almannaþágu væri fjármögnuð með rekstri spilakassa. Spilakassar eru hannaðir til að ýta undir spilafíkn. Ólíkt happdrættum þá skila þeir niðurstöðu samstundis og hægt er að spila strax aftur. Það ýtir undir vanamyndun og því eru þátttakendur mun líklegri til að þróa með sér fíkn heldur en þátttakendur í happdrættum. Þá er útreiknað vinningshlutfall spilakassa almennt hærra en sambærilegt hlutfall í happdrættum og það getur ýtt undir ranghugmyndir notenda um afleiðingar þátttöku. Spilakassar velta yfir milljarði króna á ári hverju þrátt fyrir tiltölulega fáa notendur. Það gefur til kynna að veltuna megi að mestu leyti rekja til spilafíkla sem eyði verulegum fjármunum í fíkn sína.

Efni frumvarpsins. Það er orðið löngu tímabært að hætta rekstri spilakassa á Íslandi. Það getur ekki réttlætt svo skaðlega starfsemi að ágóðinn renni til góðgerðarmála. Það gerir lítið gagn að innleiða svokölluð spilakort. Sú aðferð mundi hvorki leysa fjármögnunarvanda góðgerðarfélaga né vinna gegn vanda spilafíkla. Það eina sem dugar er algert bann. Þá er það engin afsökun að vísa til þess að Íslendingar hafi aðgang að fjárhættuspilum í gegnum erlendar vefsíður. Erlendar spilasíður eru vissulega skaðlegar og þörf er á frekari aðgerðum til að koma í veg fyrir aðgengi að þeim á Íslandi. Við getum ekki afsakað eigin sóðaskap með því að benda á háttsemi annarra. Við eigum að stefna að því að koma í veg fyrir aðgengi að erlendum spilasíðum í stað þess að nota tilvist þeirra til að réttlæta áframhaldandi rekstur spilakassa. Um þessar mundir hafa tvö félög heimild til reksturs spilakassa. Happdrætti Háskóla Íslands rekur spilakassa undir nafninu Gullnáman og Íslandsspil, félag í eigu Rauða krossins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sér einnig um rekstur spilakassa. Frumvarp þetta leggur til að heimildir til reksturs spilakassa verði felldar brott úr lögum um Happdrætti Háskóla Íslands og að lög um söfnunarkassa falli úr gildi. Með samþykkt frumvarpsins yrði ekki heimild í lögum til að starfrækja spilakassa og myndi slík starfsemi því varða refsiábyrgð skv. 183. og 184. gr. almennra hegningarlaga. Til að koma í veg fyrir tekjufall hjá rekstraraðilum Íslandsspila er lagt til að ríkissjóður greiði hluthöfum árlega 1 milljarð kr. árin 2023–2026. Hagnaður Happdrættis Háskóla Íslands hefur verið nýttur til uppbyggingar á háskólasvæðinu. Til að fjármagna viðhald og áframhaldandi uppbyggingu er lagt til að ráðherra geri samning við háskólann um uppbyggingu á svæðinu og að ríkissjóður sjái um að fjármagna uppbyggingu með lánveitingum til háskólans. Lagt er til að áætlað tekjutap HHÍ vegna lokunar spilasala árin 2023–2026 gangi upp í greiðslur vegna samningsins. Framangreindar aðgerðir koma í veg fyrir skyndilegt tekjufall rekstraraðila spilakassa en ljóst er að þörf er á frekari stefnumótun um fjármögnun SÁÁ, Landsbjargar, Rauða krossins og Háskóla Íslands. Vonandi fær sú stefnumótun forgang hjá stjórnvöldum með samþykkt þessa frumvarps.

Það verður að segjast alveg eins og er að það hlýtur að teljast ömurlegt að það skuli vera þannig varðandi Háskóla Íslands að við séum að byggja upp húsnæði fyrir háskólann og fjármagna það með spilakössum og spilakassafíkn. Það getur aldrei verið réttlætanlegt.

Í því samhengi vil ég benda á að það birtist grein í Mannlífi 4. júní 2021 þar sem er viðtal við Ölmu Hafsteinsdóttur, formann Samtaka áhugafólks um spilafíkn. Fyrirsögnin er: „Fór með 15 milljónir í spilakassa á einu og hálfu ári. „Þetta er fullkomin geðveiki“.“ Við hljótum að geta tekið undir það. Í viðtali við Dagmál á mbl.is segir Alma Hafsteinsdóttir, með leyfi forseta:

„Mér barst bankayfirlit frá einstaklingi þar sem hann hafði tekið út 15 milljónir á 18 mánuðum í reiðufé í posum í sjoppum. Það sem stakk mig við þetta yfirlit voru ekki endilega kannski upphæðirnar heldur að hvergi í ferlinu stígur einhver inn og segir: Er þetta ekki komið gott? […] Það er öllum fullljóst sem koma að þessu að þetta er geðveiki. Það er ekkert heilbrigt við þetta, ekki neitt.“

Lagt hefur verið fram á Alþingi frumvarp um bann við spilakössum og undir það tekur Alma og styður heils hugar okkar frumvarp.

Á vef SÁÁ segir, með leyfi forseta:

„Spilafíkn er ólík áfengis- eða vímuefnafíkn að því leyti að einkennin bera menn síður utan á sér. Það eru heldur ekki til nein blóðpróf til að ákvarða á hvaða stigi spilafíknin er. Spilafíklar líta yfirleitt eðlilega út allt þar til seinni stigum sjúkdómsins er náð. Spilafíkillinn er ekki loðmæltur eða reikull í spori. Hann getur sannfært sjálfan sig og aðra um að hann sé aðeins í tímabundnum peningavanda sem brátt muni lagast.“

Enn fremur kemur fram að „u.þ.b. 2–5% af þeim sem leggja undir í fjárhættuspilum séu haldnir sjúklegri spilafíkn. Spilafíkn getur þjakað fólk af báðum kynjum, á öllum aldri og sama hver staða þeirra er eða fjárhagsgeta. […] Á Íslandi er boðið upp á stuðning og meðhöndlun við spilafíkn í gegnum sjálfshjálparhópa sem starfa samkvæmt 12 spora kerfinu.“

Í greininni í Mannlífi segir enn fremur:

„Tap upp á 360.000 kr. á klukkutíma. Alma kallar á að stjórnvöld taki á vanda spilafíkla en nýverið skilaði Landlæknisembættið inn umsögn um frumvarpið og kemur fram í því áliti að embættið styður frumvarpið og vísar meðal annars til þess að Norðmenn hafi bannað spilakassa árið 2007.“ — Eigum við ekki að taka þá okkur til fyrirmyndar? „Alma segir að spilkassar séu í algerum sérflokki þegar kemur að ágengum fjárhættuspilum. Hún nefnir sem dæmi að spilafíkill geti tapað 360 þúsund krónum á klukkutíma í spilakössum sem reknir séu af virðulegum stofnunum og samtökum á við Rauða krossinn, Landsbjörgu og Háskóla Íslands. „Þetta er eins og seinni Metoo-byltingin enda þessi samtök og stofnanir ígildi „góðu strákanna“, segir Alma.“

Það hlýtur að segja okkur að það er eitthvað skrýtið við það að bjarga með annarri hendinni en sökkva öðrum með fíkn með hinni. Það getur ekki verið eðlilegt.

Þá má benda þess að Ögmundur Jónsson, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður, skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 12. september sem heitir, með leyfi forseta: „Nefnd hefur verið nefnd.“ Þar segir m.a. orðrétt:

„Er þá komið að máli málanna. Hvernig skyldu framboðin til Alþingis ætla að svara spurningu Samtaka áhugafólks um spilafíkn? Styðja þau lokun spilakassa eða gera þau það ekki? Já eða nei.“

Það fer ekkert á milli mála. Við í Flokki fólksins segjum já, við styðjum við það að loka spilakössum. Ég vona heitt og innilega að ríkisstjórnin taki undir það og geri það líka.

Það verður að segjast eins og er að við erum með þessa kassa á ólíklegustu stöðum og því miður hefur verið þannig að þegar þeir eru inni í sjoppum — sem betur fer er það nú orðið fágætt en það er búið að búa til sérstakra spilasali til að afmarka þetta en það leysir engan vanda. Eina lausnin er sú hreinlega að banna þetta.

Það er algjörlega með ólíkindum að Háskóli Íslands sé að fjármagna sig með spilakössum. Ég spyr: Hvernig í ósköpunum er hægt að menntastofnun, þar sem er siðfræðikennsla, fjármagni á sama tíma ákveðinn hluta af húsnæði sínu með spilakössum? Gróði af spilakössum kemur úr vasa spilafíkla, sem er HÍ til háborinnar skammar. Það er siðferðilega kolrangt, það segir sig sjálft, af því að spilafíkn hefur valdið gífurlegu tjóni hjá viðkomandi spilafíklum og ekki síður hjá fjölskyldum þeirra og vinum. Það er ekki bara fjárhagslegt tjón, heldur líka andlegt og líkamlegt tjón. Það er skelfilegt ástand sem skapast hjá viðkomandi spilafíklum.

Það er ekki hægt að réttlæta þetta á nokkurn hátt og við verðum að setja lög um það í eitt skipti fyrir öll að banna spilakassana. SÁÁ er hætt, en Landsbjörg, Rauði krossinn og Háskóli Íslands verða að taka sig á og hætta líka. Það væri best ef þau tækju sig til og hættu þessu heldur en að það þurfi að setja lög á þau til að þvinga þau til að hætta þessari starfsemi. Auðvitað er það sjálfsagt, eins og kemur fram í frumvarpinu, að reyna að bæta þeim upp það fjárhagslega tjón sem þau verða fyrir, vegna þess að þetta fjármagn sem þau eru að nýta vegna spilakassanna fer til góðra málefna. En það hlýtur að vera ömurlegt, og sérstaklega fyrir þessar stofnanir, að taka við þessum fjármunum og vita að 15 milljónir fóru í spilakassa á einu ári.

Ég segi fyrir mitt leyti að þetta veldur mörgum fjölskyldum gífurlegu andlegu og líkamlegu og fjárhagslegu tjóni og er ekki hægt að sætta sig við þetta. Við eigum ekki að sætta okkur við þetta, við eigum aldrei að sætta okkur við að það sé verið að nota svona kassa til að fjármagna eitthvað þó að það séu góð málefni. Það er staðreynd að við eigum bara að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að samþykkja þessi lög, stoppa þetta og vera til fyrirmyndar. Fyrst Norðmenn gátu gert það þá hljótum við að geta gert þetta. Þeir gerðu þetta 2007.

Er ekki kominn tími til að við brettum upp ermarnar og sjáum til þess í eitt skipti fyrir öll að við lokum þessum kössum og verðum þar af leiðandi með Norðmönnum í liði og sýnum gott fordæmi? Síðan þarf auðvitað að taka á því hvernig við ætlum að taka á netspilun erlendis. En það er allt annað mál. Við eigum að leysa þetta og við eigum að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að hætta þessu. Bönnum spilakassa.