135. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[14:44]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins tvær spurningar til hv. framsögumanns meiri hluta nefndarinnar áður en umræðan um málið hefst. Í fyrsta lagi sýnist mér að orðið hafi villa í nefndarálitinu í eftirfarandi setningu sem er um miðbik fyrstu síðu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Aðstoðarmenn þeirra alþingismanna sem gegna embætti formanns stjórnmálaflokks munu hafa skrifstofu í húsakynnum Alþingis og fá alla almenna skrifstofuþjónustu eins og starfsmenn þingsins.“

Er ekki verið að tala um alla skrifstofuþjónustu sem þingmenn njóta? Það er varla verið að tala hér um skrifstofuþjónustu sem starfsmenn þingsins njóta eða hvað?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hv. framsögumann meiri hlutans um rökin fyrir því að meiri hlutinn skuli leggja til að lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og reglur settar samkvæmt þeim og sömuleiðis lögin um tímabundna ráðningu starfsmanna skuli ekki gilda um aðstoðarmenn alþingismanna. Rökin fyrir þessu koma ekki fram í nefndaráliti meiri hlutans. Mér finnst sérstaklega mikilvægt að fá fram skýringu hjá hv. þingmanni í ljósi þess að ákveðnir þættir starfsmannalaganna eiga engu að síður að gilda um þessa starfsmenn, þ.e. reglur um hæfisskilyrði.

Mér finnst allsendis ófullnægjandi að ekki skuli koma rök frá meiri hlutanum fyrir þessu, að að hluta til skuli ákveðnir þættir starfsmannalaganna gilda en að öðru leyti ekki.