135. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[15:28]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér mátti heyra eina af þessum venjubundnu ræðum Vinstri grænna sem í stuttu máli eru þannig að þeir eru á móti málinu alveg sama hvað lagt er til og alveg sama hversu langt er gengið til móts við þeirra sjónarmið og þegar þeir geta ekki lengur staðið gegn framgangi máls leggja þeir til að málinu verði frestað og sett í allsherjar, ítarlega, heildstæða skoðun og úttekt.

Þetta er auðvitað bara sjónarmið. En það er val hv. þm. Atla Gíslasonar að lýsa afstöðu sinni með þessum hætti og vilja ekki koma að afgreiðslu mála eða sameiginlegri ákvörðun um niðurstöðu þeirra. Það er bara hans val. En mér finnst það sorglegt fyrir hönd þeirra kjósenda sem hafa kosið þennan ágæta flokk að þingmenn hans virðast vera algjörlega ófærir um að axla ábyrgð á einhverri málefnalegri niðurstöðu og þurfa að verja tíma sínum fyrst og fremst í að búa sér til og skýra sérstöðu sína frá niðurstöðunni.

Það sem mér fannst leiðinlegast að heyra í máli hv. þingmanns var tal hans um aðstoðarmenn og starfsfólk þingsins. Ég vil biðja hv. þingmann að vera ekki að blanda starfsfólki þingsins inn í þetta eða reyna að gera lítið úr tillögum um aðstoðarmenn þingmanna með því að það vegi að einhverju leyti að starfsfólki þingsins. Mér finnst það ómaklegt og ósæmilegt og svona á hv. þingmaður ekki að tala. Ég held að hann verði kannski, úr því að hann fór inn á þær brautir að gera athugasemdir við launakjör aðstoðarmanna og bera þau saman við launakjör starfsmanna þingsins, bara einfaldlega að svara því hvaða tillögu hann hafi í þeim efnum því að ég veit að fyrstu þingmennirnir og þeir sem verða fljótastir til að ráða sér aðstoðarmenn verða þingmenn (Forseti hringir.) Vinstri grænna.