136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[14:02]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Um þetta frumvarp, eða annað því líkt, fjölluðum við mikið og vel á síðasta ári. Niðurstaðan varð sú að margir höfðu efasemdir um að þessar aðgerðir ættu rétt á sér.

Nú hefur bankakerfið í landinu hrunið og efnahagsástandið er allt annað en það var. Bændastéttin sem slík á mjög undir högg að sækja sem og aðrir Íslendingar, bæði hvað varðar atvinnurekstur og eins einstaklingarnir sem slíkir. Það mun bitna mjög verulega og alvarlega á bændastéttinni að fá þetta frelsi. Þetta er einn af göllunum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og þær skyldur sem menn eru að tala um að uppfylla þurfi gagnvart samningnum um Evrópskt efnahagssvæði.

Ekki er nóg með að skrifa þurfi undir og innleiða svona reglugerðir, um frjálst flæði á ferskum matvælum, þó að enn séu tollar í gildi. En það sem mér finnst verst er að verið er að nota sjávarútveginn í þessu tilfelli með þeim hætti að segja að ef ekki verði gengið að frelsi til að flytja inn landbúnaðarvörur þá muni það bitna á útflutningi okkar á sjávarafurðum sem ég tel alls ekki rétt og við höfum ekki séð nein gögn um það frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Það er ekkert óeðlilegt að við spyrjum: Hvar eru þau gögn og af hverju er ekki hægt að sýna okkur þau?

Þessu til viðbótar skil ég ekki af hverju ákvæði þurfa að vera um dýralækna í þessu frumvarpi sem mér finnst vera af allt öðrum meiði.