136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[14:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég þarf beinlínis að stafa þetta ofan í hv. þingmann en kostnaðarumsögnin er unnin af fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Það var eftir að við höfðum farið yfir frumvarpið, eins og ég gerði grein fyrir hér áðan. Þegar frumvarpið var tilbúið af hálfu okkar í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu var það sent í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Niðurstaðan var sú, eftir að farið hafði verið yfir frumvarpið og menn höfðu gert sér grein fyrir þeim fjárhagslegu stærðum sem þar var um að ræða, að forsendurnar sem að því sneru breyttu því ekki að hægt var að styðjast við og nota þá kostnaðarumsögn sem áður hafði verið lögð fram. Hér er því ekki um neitt óeðlilegt að ræða og þetta er saga málsins.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þessi löggjöf er býsna flókin. Þess vegna hef ég lagt áherslu á að við reyndum að vanda undirbúninginn eins og við mögulega gætum. Ég nefndi það lauslega í framsögu minni hér áðan að þetta mál ætti sér mjög langa forsögu. Það á sér áralanga forsögu og forveri minn á stóli landbúnaðarráðherra hafði unnið að því og það hafði komið fram hvað eftir annað, líka á opinberum vettvangi, að óhjákvæmilegt væri að innleiða löggjöfina. Ástæðan fyrir því að það hefur tekið þó þennan tíma, mörg ár, að koma málinu í þann búning sem það er nú í er sú sem hv. þingmaður nefndi hér, málið er flókið. Þess vegna hefur vinnsla málsins kallað á og tekið áralanga vinnu, bæði vegna þess að við leituðum annarra leiða, sem síðan var sýnt fram á að voru ófærar. Því varð niðurstaðan sú að undirbúa málið með þeim hætti sem gert hefur verið. Að mínu mati hefur það verið gert með vönduðum hætti, m.a. með því að kalla eftir ítarlegum álitum ráðuneytis okkar, sjálfstæðra aðila, sem við kölluðum sérstaklega til, með gögnum sem hafa verið lögð fram í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og með (Forseti hringir.) vísan til álita sérfræðinga og hagsmunaaðila sem rækilegt tillit hefur verið tekið til.