136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[14:19]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Frumvarpið sem hér er til umræðu er að mínu mati veruleikaflótti eða veruleikafirring í ljósi efnahagshrunsins, ekki er hægt að segja annað. Með því stefnir í stórslys.

Fyrst um formlega ágalla frumvarpsins. Hvernig stendur á því að slíkt valdaframsal er heimilað með frumvarpinu og hvernig stendur á því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur enn ekki, að því er mér virðist, lagt fram reglugerðirnar sem eiga að fylgja frumvarpinu? Þegar Norðmenn tóku sambærilegt frumvarp til umfjöllunar lágu allar reglugerðir, allt sviðið, opið og menn vissu fullkomlega hverju þeir gengu að. Í þessu frumvarpi er fjöldinn allur af reglugerðarheimildum en enn eru drög að reglugerðum ekki komin fram þó svo að þráfaldlega hafi verið spurt eftir þeim í meðferð sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar á frumvarpinu, sem lagt var fram á síðasta þingi.

Líka var þráfaldlega spurt eftir gögnum og upplýsingum um samningaviðræðurnar og viðhlítandi svör liggja alls ekki fyrir enn þá.

Í þriðja lagi, hvar standa samningar um viðbótartryggingar vegna salmonellu og hvar standa eftir skýrar kröfur varðandi kampýlóbakter?

Evrópusambandið hefur ekki áhyggjur af kampýlóbakter. Við höfum náð alveg gríðarlegum árangri á Íslandi og ég fullyrði að við höfum besta heilbrigðiskerfi, matvælaöryggiskerfi í Evrópu ef ekki víðar. Því skyldum við taka upp kerfi sem slakar á þeim kröfum sem við höfum talið okkur skylt að standa undir og reynslan hefur kennt okkur að standa undir?

Það sem hér stendur fyrir dyrum er að opna fyrir eftirlitslausan eða eftirlitslítinn innflutning á hráu kjöti. Eftirlitið felst í því að bregðast við þegar einhver verður veikur. Það hefur og getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir matvælaöryggið. Sama gildir um fæðuöryggið. Frumvarpið getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir neytendavernd og sanngjarna viðskiptahætti í ljósi þeirrar fákeppni sem ríkir á matvörumarkaði og þeir miklu flutningar á kjöti sem þarna er stefnt að hefðu líka stórkostlegar afleiðingar fyrir umhverfisvernd.

Þetta eru að mínu mati ótrúlega kaldar kveðjur til bænda í kjölfar efnahagshrunsins og ótrúlega kaldar kveðjur til matvælaiðnaðarins. Á þetta treystir landsbyggðin. Alveg ótrúlegt er hversu ríkisstjórnin beygir sig stöðugt í hnjánum fyrir ESB, titrar í hnjánum. Við vitum að Icesave-samningarnir og ábyrgðin þar var samþykkt vegna hótana ESB um að við fengjum ekki fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að Evrópska efnahagssvæðið yrði sett í uppnám og þjóðir þar mundu beita neitunarvaldi gegn ESB-umsókn. Fyrir þessu vék ríkisstjórnin þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hefði sagt 13. nóvember sl. að samningar eða ábyrgð á Icesave væri gjörsamlega óaðgengilegt og undir það tók hæstv. forsætisráðherra.

Enn bugtum við okkur og beygjum fyrir Evrópusambandinu og nú á að stefna matvælaöryggi þjóðarinnar í hættu. (Gripið fram í.) Hvað er að okkur? Engar meginbreytingar hafa orðið á frumvarpinu í þá átt sem Bændasamtökin, sveitarfélög, framleiðendur og bændur almennt hafa kallað eftir. Kallað var eftir eftirliti í tolli, það er ekki komið. Einnig hefur verið kallað eftir því, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að við förum sömu leið og Norðmenn í það minnsta, þ.e. höfum tollumhverfi sem kemur í veg fyrir innflutning. Það höfum við ekki. Norðmenn geta stýrt innflutningi á hráu kjöti eftir framboði og eftirspurn. Ef Norðmenn framleiða nægilega mikið af kjúklingi, kjöti eða öðrum landbúnaðarvörum flytja þeir ekki inn gramm. Ef það er skortur og framboðið í Noregi annar ekki eftirspurn eru gefnir út kvótar og innflutningur heimilaður. Við höfum engar slíkar tryggingar og hæstv. ráðherra hefur hvorki sannfært mig né hagsmunaaðila, Bændasamtökin, sveitarfélög og framleiðendur, um að hér stefni ekki í stórslys.

Ég sagði að þetta væru kaldar kveðjur til bænda, það er svo sannarlega satt. Einhver 100, 200 mjólkurbú á landinu eru í verulegum greiðsluerfiðleikum og tugir annarra eru í greiðsluerfiðleikum en stefna þó ekki í þrot. Sauðfjárbúskapurinn stendur enn verr. Í stað þess að rétta bændum hjálparhönd, frysta öll lán þeirra og koma til móts við þá með fjárhagsaðstoð og öðrum hætti, þá virðist forgangsverkefnið vera að koma fram með frumvarp sem mælir fyrir um skert kjör þeirra. Þetta kalla ég veruleikafirringu, ég verð að segja alveg eins og er. Í dag, þegar ríður svo mikið á að við kaupum íslenskt, spörum okkur allan þann gjaldeyri sem við getum og stundum atvinnustarfsemi hér á Íslandi sem kallar ekki á mikil útlát í gjaldeyri. Nei, þá á að fara að örva innflutning á hvítu kjöti, eggjum og fleiru.

Hvar er þjóðin stödd? Skilja ráðamenn ekki ástandið? Skilja ráðamenn ekki að hér er vaxandi atvinnuleysi og það ríður á að styrkja grunnstoðir þjóðfélagsins? Það ríður á að styrkja landbúnaðinn og efla atvinnu innan lands og fullvinnslu. Það ríður á því að við vinnum hvern fisk sem kemur til landsins innan lands og flytjum ekki út óunninn afla. Alþingi felldi tillöguflutning í þá veru til bráðabirgða, jafnvel þó að það skapi a.m.k. jafnvel fimm þúsund störf, tíu frystihús. Hvar er ríkisstjórnin stödd og ríkisstjórnarþingmenn?

Margir bændur standa frammi fyrir því að ráða ekki nú í febrúar við uppgjör á virðisaukaskatti fyrir síðari helming ársins 2008. Fjöldi bænda stendur frammi fyrir því, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að ráða ekki við áburðarkaupin í vor. Hver eru úrræði ríkisstjórnarinnar í þeim efnum? Að heimila frjálsan innflutning?

Staðan er gjörbreytt frá því að frumvarpið var lagt fram í fyrra, gjörbreytt, en viðbrögðin við því eru engin. Verði þetta frumvarp að lögum mun það hafa gríðarleg áhrif á atvinnu fólks hérlendis, það mun hafa áhrif á matvælaöryggi, eins og ég hef sagt, og gæði matar, og sérfræðingar óttast að sýkingum muni fjölga. Við krefjumst þess að frumvarpið verði dregið til baka, frestað verði að fjalla um það meðan við förum yfir mestu erfiðleikana í efnahagslífi okkar og undirbyggjum grunnstoðir íslensks samfélags. Meðan við erum að tryggja það að hver vinnufús hönd hafi eitthvað til að starfa krefjumst við þess að þetta frumvarp verði dregið til baka og menn horfist í augu við atvinnuleysið og það sem er enn alvarlegra, landflótta. Að við horfumst í augu við reynslu annarra þjóða af þrengingum eins og þeim sem hin íslenska þjóð glímir við.

Við þurfum ekki að fara langt, við getum horft til Færeyja þar sem einir sjö, átta þúsund Færeyingar fóru úr landi eða sjö, átta þúsund komu ekki til baka, ég hef ekki tölurnar á hreinu. Við megum ekki missa einn einasta einstakling úr landi og þeir sem kunna að fara úr landi eru fyrst og fremst þeir sem hafa góða menntun og annað slíkt, Íslendingar sem geta gagnast landbúnaðinum verulega. Við megum ekki missa einn einasta mann og við megum ekki stefna í atvinnuleysi.

Hvað matvælaöryggið varðar lá fyrir nefndinni á síðasta vori og hefur komið ný álitsgerð sem Margrét Guðnadóttir, fyrrverandi prófessor í sýklafræði, skilaði að ósk Bændasamtakanna. Þessi ítarlega greinargerð er dagsett í ágúst, ef ég man rétt, og í henni varar Margrét við þeirri stórkostlegu hættu sem blasir við. Full ástæða er til að taka mark á Margréti Guðnadóttir, hún er talin einn fremsti sérfræðingur í heiminum í þessum fræðum. Í greinargerð hennar, sem tími gefst ekki til að fjalla nákvæmlega um, segir að við blasi stórkostlegt slys ef af verður. Hún bendir á reynsluna, herra forseti, hún bendir á reynsluna. Við höfum brennt okkur áður.

Það sem kannski er aðalatriðið í þessu máli, hæstv. ráðherra, er — sem menn virðast ekki skilja og ganga út frá og Evrópusambandið virðist ekki hafa skilning á — að Ísland er eyland og hér hlaupa dýr ekki á milli landa. Við búum á eyju fjarri öðrum löndum og landlægir smitsjúkdómar fara ekki á milli landa. Ekki bara það. Við höfum hér dýrastofna, bæði kúakyn og sauðfjárkyn, sem eru einstakir í veröldinni og hafa hvorki þol né mótefni gagnvart sjúkdómum sem eru landlægir í Evrópu. Við vitum fullkomlega að ekki er tekið á kampýlóbakter neins staðar.

En nei, viðvörunarorð Margrétar Guðnadóttur eru hunsuð. Fram hafa komið töflur um árangur okkar varðandi salmonellu og kampýlóbakter og maður er stoltur af því hvernig menn á Íslandi hafa tekist á við kampýlóbakter, framleiðendur og bændur. Ótrúlegur árangur hefur náðst eftir árið 1999, alveg ótrúlegur, bæði varðandi kampýlóbakter og ekki síður salmonellu. Við fengum fregnir af því í sumar að Danir eiga í verulegum vandræðum út af matvælaöryggi, þar var landlæg matareitrun í sumar. Þeir hafa átt í vandræðum með innflutning frá Frakklandi vegna þess að þeir hafa ekki getað stoppað hann í tolli. Þeir hafa neyðst til þess síðan að setja kröfur og stoppa í tolli og liggja því undir ámæli Evrópusambandsins, sem kúgaði okkur til að taka ábyrgð á Icesave-reikningunum.

Gera menn sér ekki grein fyrir því hversu mikilvæg störfin í matvælaiðnaði eru á Íslandi? Í kjördæmi mínu, Suðurkjördæmi, er matvælaiðnaður einn af hornsteinum atvinnu þar sem ekki er mikið að hafa, það sama gildir um Norðausturkjördæmi, Norðvesturkjördæmi og fleiri staði. Sjálfstæðisflokkurinn gengur gegn hagsmunum íbúa þessara byggðarlaga með framlagningu frumvarpsins, ég fullyrði það. Hvað er gert á móti til að tryggja að bændur liggi ekki undir hnefanum á einokunarsmásölunni? Af hverju komum við ekki með aðgerðir á móti því þegar 80% af versluninni er á tveimur höndum? Hvernig verður staða innlendra framleiðenda gagnvart þessum fyrirtækjum þegar er búið að leyfa frjálsan innflutning og þau fleyta rjómann ofan af? Er ekki verið að hugsa um neytendavernd þar?

Hvað með umhverfisverndina, flutninga milli landa og þar fram eftir götunum? Sama er hvar drepið er niður í þessu máli, þetta er með því firrtara sem maður hefur séð lengi, (Forseti hringir.) sérstaklega í ljósi efnhagshrunsins.