138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

náttúruverndaráætlun 2009-2013.

200. mál
[18:00]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er kjarni málsins. Auðvitað þarf að vera samstarf og auðvitað þarf að vera einhver yfirstjórn. Þetta er okkur allt saman alveg ljóst. En þetta er hins vegar flókinn málaflokkur og þar mun t.d. reyna mikið á sérhæfða þekkingu á einstökum svæðum eins og kveðið er á um hér í þessari tillögugrein. Þess vegna finnst mér það vera í samræmi við eðli máls að við hljótum að ætla náttúrustofunum heilmikið hlutverk. Það er hins vegar ekki kveðið á um það í þessari tillögugrein eins og ég hef þegar rakið. Ég lúslas þennan texta til þess að leita hvort ég fyndi einhvers staðar orðið „náttúrustofur“ og ég bara fann það ekki. Það var ekki þar. Það var bara einfaldlega ekki gert ráð fyrir því að náttúrustofur hefðu nokkurt hlutverk. Það rak mig áfram í því að Alþingi mundi kveða upp úr um það að við ætluðum náttúrustofunum ákveðið hlutverk eins og lögin kveða á um.

Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður segir, sem er auðvitað gjörkunnur þessum málaflokki, að náttúrustofurnar hafa verið að vinna stórkostlegt verkefni. Tökum bara dæmi, sem ég þekki sjálfur, Náttúrustofuna í Stykkishólmi, sem gaf nýlega út mjög athyglisverðar skýrslur, Náttúrustofuna á Vestfjörðum, sem hefur verið að sérhæfa sig í rannsóknum á hinu stórmerkilega lífríki á Hornströndum, og Náttúrustofu Norðurlands-vestra á Sauðárkróki, sem hefur sömuleiðis unnið að alls konar mjög athyglisverðum staðbundnum verkefnum þar. Þannig mætti áfram telja. Ég þykist vita að á Austurlandi hafi m.a. mjög mikið verið skoðuð málefni sem snúa að hreindýrum á svæðum sem ég þekki ekki eins vel til.

Aðalatriðið er það að mér heyrist að hér sé að myndast prýðileg samstaða um að kveðið verði á um það í þessari þingsályktunartillögu, þegar hún verður samþykkt, að hlutverk náttúrustofanna verði skýrt, það verði afmarkað og náttúrustofunum verði veitt aukið hlutverk frá því sem áður hafði verið gert ráð fyrir og því fagna ég.