139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

Íbúðalánasjóður og skuldavandi heimilanna.

[15:36]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég biðst velvirðingar ef ég hef sagt þetta, eða gefið í skyn að hv. þingmaður fylgdist ekki með. Ég sagði: Ég veit að fólk fylgist með, þ.e. ég geri ráð fyrir að menn viti hvað hefur verið í umræðunni.

Það sem ég var að skýra út áðan var einmitt það að Íbúðalánasjóður hafði ekki þá lagaheimild sem til þarf — það er ágreiningur um það hvort ákvæðið er nógu skýrt — eða heimild til að geta fellt niður skuldir sem kunna að vera innheimtanlegar. Það er ástæðan fyrir því að hér þarf að koma til lagaákvæði, menn vilja hafa vaðið fyrir neðan sig og vera með þetta á hreinu.

Varðandi eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs get ég af sömu ástæðu og ég var að nefna áðan varðandi Kauphöllina ekki rætt það fyrir fram, það er upplýsingaskylt og sjóðurinn verður að tilkynna það. Aftur á móti liggur fyrir að Alþingi Íslendinga samþykkti 33 milljarða heimild til ríkisstjórnarinnar til að auka eigið fé Íbúðalánasjóðs. Það er síðan framkvæmdaratriði stjórnar og þeirra sem eru að vinna í Íbúðalánasjóði og fjármálaráðuneytisins með hvaða hætti það kemur inn í Íbúðalánasjóð. (Forseti hringir.) Það verður tilkynnt eftir lögformlegum leiðum þegar þar að kemur.