143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fyrri yfirlýsingar forsætisráðherra.

[16:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hlý orð um uppbyggingarstarf og hagvöxt fyrri ríkisstjórnar. En okkur er nokkur vandi á höndum í þinginu vegna þess að forsætisráðherra svaraði ekki þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar. Hv. þm. Árni Páll Árnason spurði hæstv. forsætisráðherra um bréf sem hann skrifaði kjósendum og undirritaði eigin hendi, hvort ekkert væri að marka slíkt eða hvort þetta væri eina bréfið frá honum sem ekki væri að marka.

Hæstv. forsætisráðherra gaf sömu yfirlýsingar út á ýmsum öðrum vettvangi, það er auðvitað hægt að draga það upp líka. Það er eðlilegt að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ekki sé hægt að treysta loforðum hans undirrituðum eigin hendi, eða hvort hann áskilji sér rétt eins og ráðherra Sjálfstæðisflokksins til að skipta bara um skoðun ef honum sýnist svo eftir kosningar.

Það er líka ástæða til að spyrja hæstv. forsætisráðherra um það sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir spurði og fékk heldur engin svör við. Hér sömdum við fyrir ellefu dögum síðan við formenn stjórnmálaflokkanna, formenn þingflokka, fyrir tilstuðlan forseta Alþingis um að fram færu samræður á tíu daga tímabili. Er það þannig að ef maður semur við formann Framsóknarflokksins um framgang þingstarfa með formlegum hætti og því er lýst yfir á forsetastóli, telji formaður Framsóknarflokksins sér heldur ekki vera skylt að uppfylla þá samninga?

Úr því að við erum farin að spyrja um orð og efndir gerir hæstv. forsætisráðherra nú mjög mikið úr því hvað sé heiðarlegt og rétt og hvað sé ómögulegt. Það gerir hann eftir kosningar. Þá er rétt að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann hafi sagt kjósendum að það væri óheiðarlegt og órétt að Framsóknarflokkurinn stæði að aðildarviðræðum við Evrópusambandið og hvort hann hafi talið það ómögulegt og gert kjósendum grein fyrir því að það væri ómögulegt og ef þeir kysu Framsóknarflokkinn (Forseti hringir.) mundi hann slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hvar lýsti hæstv. forsætisráðherra því yfir fyrir kosningar (Forseti hringir.) fyrst þetta er allt saman svona heiðarlegt, rétt og óframkvæmanlegt?