145. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2016.

meðferð lögreglu á skotvopnum.

392. mál
[16:19]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör af því að þetta er eitt af því sem okkur hefur verið hugleikið, þ.e. vopnaburður í almennum lögreglubílum.

Áhugavert var að heyra einmitt þessar tölur. Þær ná yfir bæði sérsveitina og hina almennu lögreglu og það er kannski óþægilegt að hafa þetta ekki sundurliðað því að við erum svolítið að leita eftir því.

Ég fékk ítarleg svör við spurningum um vopnamál sem ég lagði fyrir ráðherra. Mig langar að spyrja: Það eru 18 bílar nú þegar búnir vopnum. Stendur til að endurnýja í bílunum eða á að bæta við, sem sagt auka bílafjöldann sem í eru vopn ef bílarnir eru 18 nú þegar?

Síðan kemur fram í svarinu, og mig langar til að spyrja ráðherrann um afstöðuna til þess, að fram kemur að (Forseti hringir.) vopn séu nauðsynleg til að ná árangri með samningatækni. Ég á pínu erfitt með að fallast á að það geti verið svo.