146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir góða ræðu og tek sérstaklega undir með henni varðandi betrunarmál á Íslandi. Það þarf verulega að bæta þar aðstæður. En mig langar til að koma hér að umsögnum bæði Stúdentaráðs Háskóla Íslands við fjármálaáætlun og Háskóla Íslands um málið. Þar kemur fram að allir flokkar hafi fyrir síðustu kosningar lofað að stefnt skyldi að því að ná meðaltali OECD-ríkjanna í fjárframlögum til háskólakerfisins.

Þegar ég les meirihlutaálit fjárlaganefndar, sem lýtur bæði að framhaldsskólum og háskólum, kemur fram að meiri hlutinn er með ákveðnar athugasemdir sem samræmast þessum umsögnum. Því langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála þeirri skoðun minni að eðlilegra hefði verið hjá meiri hluta fjárlaganefndar Alþingis að koma þá með breytingartillögur við málið í samræmi við umsögnina og í samræmi við mjög svo ítarlegar og góðar umsagnir.