146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:45]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er ótrúlegt virðingarleysi gagnvart umræðunni á þingi í svona plaggi að menn sjái sér ekki fært að sinna þingskyldu sinni og taka umræðuna. Þeir gjaldfella þetta plagg algjörlega. Það er greinilega mikil fýla í stjórnarliðum og þeir brenna ekkert fyrir því að taka rökræðuna í stól Alþingis sem á að gera. Þeir brenna ekki fyrir þessu máli frekar en ég veit ekki hvað. Menn ættu auðvitað að vera í andsvörum og tala fyrir þessari fjármálaáætlun ef það væri eitthvert mark takandi á henni en menn gera það ekki. Það kom fram áðan, en ég spyr: Eru þessir menn ekki í stjórnmálum, þetta fólk? Ég held að það sé ekkert í stjórnmálum. Þetta er bara spurning um völd og þegar þau eru komin í hendurnar á sumu fólki þarf það ekkert að sinna þeirri lýðræðislegu skyldu að taka umræðu um svona mikilvægt mál (Forseti hringir.) sem snertir alla málaflokka til næstu framtíðar.