146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hennar ræðu. Og þótt það sé ekki oft gert að hrósa þingmönnum í öðrum flokkum í þessum þingsal, sem mér finnst miður, vil ég leyfa mér að gera það hér: Hún er ötull baráttumaður fyrir hagsmunamálum landsbyggðar og atvinnulífs.

Það vakti athygli mína, þegar hún fór yfir vinnu í hv. atvinnuveganefnd, þar sem hún situr, að hún sagði eitthvað á þá leið að kannski hefði mátt teygja sig lengra í að ná einhverjum samhljómi með stjórnarandstöðunni í breytingum eða meðferð málsins. Það olli mér vonbrigðum þegar ég sá mörg minnihlutaálit fara að birtast og margar minnihlutaumsagnir. Ég tel að fagnefndirnar hefðu nefnilega haft dauðafæri, ef ég leyfi mér að nota það orð, til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu í gegnum þessa rýni nefndarinnar.

Mig langar að biðja þingmanninn að fara þá kannski yfir það með mér, í ljósi þessarar reynslu, hvar hún sæi þennan snertiflöt sameiginlegrar niðurstöðu geta legið.