146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:20]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar að koma örlítið inn á velferðarmálin og spyrja hv. þingmann hvort hún hafi eitthvað kynnt sér þann hluta. Nú sjáum við að heildarupphæðin fyrir framlög til heilsugæslunnar aukast verulega. Þegar maður rýndi í og fékk óvart að sjá eina glæru sást að byggja á eina heilsugæslu hér á höfuðborgarsvæðinu sem skekkir verulega mynd af því hvernig styrkja eigi heilsugæsluna.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún taki ekki undir áhyggjur mínar af því að það sé mjög ógagnsætt í ríkisfjármálaáætluninni hvernig efla eigi heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni og hvort ekki sé mikilvægt að skýrar línur komi fram um það, sérstaklega þar sem við höfum verið að innleiða nýtt tilvísunarkerfi þar sem vægi heilsugæslunnar í heilbrigðiskerfinu er aukið. Ég spyr hvort hún taki ekki undir að það sé mjög mikilvægt að við horfum til heilsugæslunnar á landsvísu en ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu.