146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:04]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég tek undir orð hans um mikilvægi þess að við eflum heilsugæsluna um land allt og mikilvægi þess að við náum fólki til starfa á heilsugæslunni víðs vegar um landið. Við þurfum að leggja okkur fram við það.

Mig langar í því samhengi að spyrja hv. þingmann hvernig honum lítist á tillögur hv. þingmanna Framsóknarflokksins um að nýta námslánakerfið sem hvatakerfi til að reyna að ná heilbrigðisstarfsfólki til starfa á heilsugæslustöðvum úti á landi þar sem skortur er á starfsfólki. Þá gæti maður t.d. fengið afslátt af námslánum ef maður réði sig í einhvern tíma inn á stofnun þar.