146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:32]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar við erum þegar með samþykktar fjárhagsáætlanir hjá sveitarfélögunum og ekki er tekið tillit til þeirra, hvorki í fjármálastefnu né í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, hljótum við einfaldlega að vera að blekkja okkur varðandi niðurstöðuna. Þetta eru ekki einhver framtíðarútgjöld heldur þegar samþykktar áætlanir hjá sveitarfélögunum. Við gætum vissulega rætt það hér sérstaklega og töluvert lengur en í einu andsvari.

Ég ætla frekar að nota tækifærið á þessum stutta tíma og spyrja þingmanninn, sem ég veit að er sérfræðingur í almenningssamgöngum og var stjórnarformaður Strætó. Við í Suðvesturkjördæmi höfum verið sammála um að leggja áherslu á borgarlínuna. En það skal viðurkennast að á síðustu dögum hafa vaknað hjá mér ýmsar spurningar um hvernig sveitarfélögin sjái fyrir sér að fjármagna þetta, með innviðagjöldum, og líka ábendingar um að á næstu 10–20 árum munum við sjá grundvallarbyltingu í samgöngumálum, eins og fyrrverandi þingmaður Frosti Sigurjónsson (Forseti hringir.) hefur bent á. Það er raunar meira í anda þeirra breytinga sem hv. þingmaður innleiddi sem snúa að ferðaþjónustu fatlaðs fólks á vegum Strætó þar sem maður pantar einfaldlega ferðina, líkt og maður gerir í gegnum Uber, Lyft eða Didi, þá kemur vagninn heim til manns og skutlar manni nákvæmlega þangað sem maður ætlar að fara í staðinn fyrir að maður bíði á stoppistöðvum.