146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[23:27]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddný Harðardóttur fyrir ræðuna. Það eru tvær spurningar sem ég vildi beina til þingmannsins um tvö málefni sem komu fram í hennar ræðu eða hún hefur talað um í þessari umræðu. Annars vegar nefndi hún mikilvægi þess að við næðum hinu margumtalaða OECD-meðaltali í framlögum til háskólastigsins. Alveg frá því við sáum að háskólarnir og háskólarektorarnir og félög stúdenta fóru að koma með þessar ábendingar um að við þyrftum að ná meðaltalinu, þá hef ég spurt að því, líka á fundum með Háskóla Íslands og innan menntamálanefndar, hver sé ástæðan fyrir því að talað er um mikilvægi þess að ná meðaltalinu og hvort ekki sé mikilvægara að leggja áherslu á gæði námsins og árangur með þeim fjármunum sem við setjum í háskólastigið frekar en akkúrat upphæðina sem við leggjum í málaflokkinn. Þetta hefur sýnt sig t.d. í heilbrigðiskerfinu hjá okkur. Við vorum nýlega að fá einkunn í tímaritinu Lancet, eða í rannsókn sem var birt þar, þar sem kemur fram að við séum með annað besta heilbrigðiskerfi þegar horft er frá ýmsum árangri sem við höfum náð. OECD hefur líka ítrekað bent á að við séum best rekna heilbrigðiskerfið þegar horft er á þá fjármuni sem fara inn í kerfið.

Seinni spurningin snýr að ákvörðun sem ég veit að þingmaðurinn hefur verið sammála. Það væri áhugavert að fá að heyra í svari hennar nánari skýringu, þ.e. rökstuðning hennar fyrir því af hverju hún hefur verið sammála því, eins og ég hef skilið það, að hækka virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna og talað fyrir því. Það er kannski helst það sem það sem ég sjálf hef stoppað við, (Forseti hringir.) frekar en aðrar tillögur um skattahækkanir sem ég hefði verið tilbúin til þess að taka undir í því sem þingmaðurinn hefur rætt um.