149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:01]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Staðan eftir efnahagshrunið var fordæmalaus, eins og við þekkjum. Samanlagt er fall íslensku bankanna annað stærsta gjaldþrot í heimi og fordæmalaus staða kallaði á nýjar og þar af leiðandi óhefðbundnar lausnir. Það hversu vel tókst til gerir það að verkum að lausnirnar verða viðurkenndar í alþjóðlegu samhengi.

Aflandskrónur eru leifar vaxtamunarviðskipta sem tíðkuðust á árunum 2005–2008. Undir lokin höfðu aflandskrónurnar safnast á fáar hendur og vogunarsjóðirnir keyptu þessar eignir á miklum afslætti, fjárfestu í ríkisskuldabréfum og veðjuðu þar með á efnahagsbata Íslands og ríflegan vaxtamun við önnur lönd. Þegar höftin voru innleidd varð til tvöfaldur gjaldeyrismarkaður, annars vegar skráð gengi Seðlabankans, en það átti við um vöru- og þjónustuviðskipti, og svo aflandsgengi sem var umtalsvert lægra en skráða gengið og endurspeglaði þar aflandskrónur sem voru sérstakur eignaflokkur í höftum. Margvísleg sjónarmið komu fram um losun fjármagnshafta. Með tímanum tíðkaðist þverpólitísk samstaða um að nálgast málið á heildstæðan hátt. Það þýðir að lausnin tekur tillit til allra þeirra sem lokaðir voru og eru bak við höftin í stað þess að leysa mál einstakra aðila eða hópa án tillits til annarra. Þetta reyndist farsæl nálgun og skipti pólitísk samstaða verulegu máli og rétt er að árétta það.

Þessi mikilvæga samstaða var síðan að engu höfð þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við forsæti ríkisstjórnar og nú síðast Vinstri grænir. Stöðugleiki var leiðarstefið í vinnu við losun fjármagnshafta, að losa um höft án þess að raska efnahagslegum stöðugleika og að útkoman væri í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar landsins.

Það er stjórnmálamannanna að taka ákvarðanir. Skýr sýn er forsenda árangurs. Skýr skilaboð þess efnis að gengið yrði eins langt og unnt væri innan ramma fullveldis og alþjóðlegra skuldbindinga skiptu miklu máli við losun hafta. Án þess hefði ekki verið unnt að ná góðum árangri.

Herra forseti. Það er ákaflega dapurlegt að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna skuli ekki viðhalda þessum skýru skilaboðum gagnvart vogunarsjóðunum sem hafa einskis svifist gagnvart íslenskum stjórnvöldum og meira að segja reynt að hafa áhrif á kosningar í fullvalda ríki.

Ég vil að lokum aðeins minnast á að það er mikilvægt að við vitum hverjir standa á bak við þessa vogunarsjóði, hverjir standa á bak við þá 84 milljarða sem stendur til að fara með út úr landinu.

Ef við kynnum okkur t.d. bandaríska sjóðstýringarfyrirtækið Loomis Sayles kemur í ljós ýmislegt sem ég held að mörgum hugnist ekki og sérstaklega ekki hæstv. forsætisráðherra. Þetta fyrirtæki er þekkt fyrir að konur eiga þar mjög erfitt uppdráttar. Stjórnarmenn og forstjórar fyrirtækisins hafa verið sakaðir um kynferðislega áreitni gagnvart starfsmönnum og á netinu er hægt að nálgast margar sögur kvenna um framkomu starfsmanna þar gagnvart þeim. Maður spyr: Er þetta fyrirtæki sem á að njóta sérstakrar fyrirgreiðslu af hálfu stjórnvalda til að fá að fara með krónur úr landi á miklu hærra gengi en aðrir? Það er nauðsynlegt að vita hverjir standa á bak við þessi fyrirtæki sem svífast einskis hér á landi. Loomis Sayles hafnaði tilboði Seðlabankans, rétt eins og sjóðir fyrirtækisins gerðu þegar þeir tóku ekki þátt í aflandskrónuviðskiptum í útboði bankans þegar eigendum slíkra krónueigna bauðst að selja þar á genginu 190 kr. fyrir hverja evru. Ljóst er að sjóðirnir hafa hagnast á þessari ákvörðun. Umfang aflandskróna nemur 84 milljörðum eða 3% af landsframleiðslu og eru sjóðir Loomis Sayles því eigendur að lágmarki 42% allra slíka krónueigna. Þetta fyrirtæki vilja íslensk stjórnvöld styðja með ráðum og dáð til að fá sem mest út úr íslenskum almenningi.