149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:07]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þingmenn Miðflokksins hafa rætt þetta mál alllengi. Ég hef reynt að leggja mig eftir því að skilja í hverju vandinn felist. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann geti útskýrt það frekar fyrir mér. Ég geri ráð fyrir að Miðflokkurinn sé stuðningsaðili frjáls flæðis fjármagns milli landa, sem er ein af grundvallarskuldbindingum okkar í samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið. Einhvern veginn finnst mér kjarninn í málflutningi Miðflokksins vera að eigendur þessara aflandskróna séu vont fólk, það sé meginvandinn og að við því þurfi einhvern veginn að bregðast.

Hv. þingmaður nefndi hér að grundvallarstefið í neyðarlögunum, í áætluninni um afnám hafta á sínum tíma, hefði einmitt verið að virða alþjóðlegar skuldbindingar okkar en gæta um leið að þjóðhagslegum stöðugleika hér heima fyrir og tryggja að afnám haftanna hefði ekki neikvæð áhrif þar á. Mér sýnist að ágætlega hafi tekist til því að erlend staða þjóðarbúsins er sú besta sem við höfum nokkurn tímann kynnst og enga sérstaka vá að sjá fyrir dyrum hvað það varðar að stíga það sem væntanlega yrði hluti af lokaskrefi okkar við endanlegt afnám hafta og hleypa því fjármagni út sem hér hefur verið bundið inni undangenginn áratug eða svo.

Hvert er vandamálið, hv. þingmaður, og hvernig ætlar Miðflokkurinn að taka á því? Það þætti mér áhugavert að heyra. Vandamálið getur ekki bara verið bundið við það að eigendur aflandskrónanna séu ekki Miðflokknum þóknanlegir.