149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:09]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður ræddi um að staða þjóðarbúsins væri svo góð. Ég held að akkúrat það sem hv. þingmaður sagði sé töluvert mikilvægt atriði í þessari umræðu, að það er alveg ljóst að menn hafa enn á ný ofmetnast yfir velgengni Íslands, eins og á árunum 2005–2008, og telja þar með að það sé ekkert mál að afsala sér miklum tekjum — og þetta veit hv. þingmaður — sem þó var búið að boða að kæmu, samanber að menn ættu ekki að græða á því að gerast eftirlegukindur. Sérstaklega er það skrýtið í samhengi við umræðuna um hugsanlega efnahagsniðursveiflu og verkföll.

Skipta þessar upphæðir ekki neinu máli? Skipta 12 milljarðar ekki máli? Það væri ágætt að hv. þingmaður svaraði því.

Lagt var upp með að allir færu út á sama genginu. Árið 2016, þegar vogunarsjóðum buðust samningar þessa efnis, var sagt að þeir sem ekki gengju að samningaborðinu gætu síðar komið að því borði á sömu kjörum. En við það var ekki staðið og gefið eftir. Það er nákvæmlega kjarni málsins. Það varðar trúverðugleika okkar sem þjóðar að hafa síðan gefið eftir með þessum hætti. Þar með gengu vogunarsjóðirnir á lagið og verið er að verðlauna þá sem komu verst fram. Það hugnast okkur Miðflokksmönnum ekki.