149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég ætlaði að gera athugasemd við ræðu hv. þingmanns og ætla svo sem að halda mig við það, en breyta samt aðeins forsendunum eftir ótrúlega yfirlýsingu hv. þm. Þorsteins Víglundssonar áðan, sem virtist telja að ef stjórnvöld héldu sig við það plan sem lagt var upp með árið 2015 fælist í því einhvers konar eignarnám. Þetta var sláandi yfirlýsing í ljósi þess að þá hlýtur hv. þingmaður að líta á allt sem gert hefur verið fram að þessu og skilaði ríkissjóði mörg hundruð milljörðum króna og miklum efnahagslegum viðsnúningi hafi falið í sér eignarnám. Ég kemst ekki hjá því að spyrja hv. þingmann … (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Forseti vekur athygli á því að hv. þingmaður er í andsvari við ræðu 3. þm. Suðurk. (SDG: Ég geri mér grein fyrir því.) og ber að beina beina máli sínu til hans. Hv. 7. þm. Reykv. n. hefur ekki tækifæri til að svara spurningum frá hv. þingmanni.)

Forseti. Það kom fram í inngangi þessa andsvars hjá mér að ég hygðist spyrja hv. þingmann út í ræðu hans en hlyti að taka mið af orðaskiptum sem hér fóru fram og ótrúlegri yfirlýsingu Þorsteins Víglundssonar vegna þess að hún lýtur að því sem hv. þingmaður var að tala um. Og því spyr ég: Má túlka orð hv. þingmanns í ræðu hans áðan sem stuðning eða sams konar skilning og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson lýsti hér áðan, að allar þessar aðgerðir hafi falið í sér einhvers konar eignarnám?