149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Því miður fór það svo að þessi áróður vogunarsjóðanna bar árangur. Við sjáum það nú að þeir hafa í raun og veru sigrað og eru sigurvegarar og það verður fullkomnað, ef svo má að orði komast, verði þetta frumvarp sem við erum að ræða samþykkt.

Það er líka annað sem þarf að ræða hér og hefur ekki fengið nægilega umfjöllun að mínu mati, þ.e. hvaða áhrif þetta frumvarp, verði það að lögum, kemur til með að hafa á gengi krónunnar. Í greinargerðinni segir að það muni ekki hafa áhrif á gengi krónunnar, Seðlabankinn muni grípa þarna inn í, en það er ekki rökstutt af neinu viti. Ég tel afar mikilvægt að fulltrúar Seðlabankans og þeir sem hafi þekkingu á efnahagsmálum hvað þetta varðar komi fyrir nefndina og geri ítarlega grein fyrir því hvaða hættur eru fyrir hendi ef gengi krónunnar fellur. (Forseti hringir.) Við þekkjum það. Þá munu lán heimilanna hækka, verðlag hækka og verðbólga fara upp úr öllu valdi.