149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:39]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að menn skyldu fara varlega í að slengja fram órökstuddum fullyrðingum, til að mynda um fjárfestingar erlendra aðila. Það er eðlilegast að byggja umræðu um það á raunhæfum og traustum gögnum frá viðurkenndum aðilum.

Ég verð að leyfa mér að segja við þetta tækifæri að mér þykir afar sérkennilegt að verða vitni að því að ýmsir kjósa að bregða á það ráð að gera þá viðleitni sem hér er höfð uppi af þingmannahópi Miðflokksins, til að gæta eðlilegra hagsmuna í þágu íslensks almennings, á einhvern hátt tortryggilega. Slík afstaða þykir mér ekki bera vitni um að menn hafi kynnt sér þetta mál gjörla enda verður það að viðurkennast að málið er út af fyrir sig ekki einfalt og þarf e.t.v. nokkra yfirlegu til að átta sig á því. Ég leitaðist við í ræðu minni, herra forseti, að draga fram hinn innsta kjarna þessa máls.