149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[15:47]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Hann kom inn á atriði sem mig langar að ræða við hann frekar. Það eru þau skilaboð sem í því felast að falla frá því plani sem rammað hafði verið inn árið 2015. Það er í rauninni uppleggið, haftalosunarplanið sem var formúlerað árið 2015. Það gekk prýðilega framan af og náðist mjög góður árangur en síðan byrja menn að hverfa frá því um mitt ár 2016 og bætir svo í það undanhald jafnt og þétt þangað til núna þegar manni þykir steininn taka úr.

Það sem mig langar að spyrja hv. þm. Ólaf Ísleifsson um er hvaða skilaboð hann telur felast í því að íslensk stjórnvöld víki frá planinu sem kynnt var sem endanlegt og ófrávíkjanlegt upp á hagsmunagæslu til langrar framtíðar að gera. Telur hv. þingmaður að það geti skaðað hagsmuni íslensku þjóðarinnar og telur hv. þingmaður að með því sé hægt að sækja eitthvað fyrir íslenska hagsmuni sem ekki væri hægt að ná fram með öðrum ráðum?