149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég hjó eftir því að hann nefndi sérstaklega trúverðugleika. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni, trúverðugleiki okkar skiptir verulegu máli þegar erlendir aðilar huga að fjárfestingum hér á landi, hvort staðið sé við yfirlýsingar o.s.frv.

Það er nefnilega það sem við höfum orðið vitni að í þessu öllu saman, að stjórnvöld hafa ekki sýnt nægilegan trúverðugleika með því að leggja þetta frumvarp fram vegna þess að í raun og veru er verið að verðlauna þær eftirlegukindur sem hér eru eftir í landinu með sínar krónueignir, á sama tíma og þeir sem fóru að vilja og fyrirmælum stjórnvalda í upphafi þurftu að fara út á öðru gengi. Þarna er því verið að mismuna aðilum. Það er aldrei gott þegar kemur að fjárfestingum og lýtur að trúverðugleika.