149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Trúverðugleiki er eitt það mikilvægasta þegar við horfum til samskipta, hvort sem það er bara okkar á milli eða innan lands eða við erlenda aðila. Þetta plagg hér, losun fjármagnshafta, skiptir gríðarlega miklu máli í því að auka eða öðlast trúverðugleika hjá erlendum aðilum, ekki síst þeim sem horfðu mögulega til þess að fjárfesta á Íslandi.

Allur vingulsháttur í svona málum, þegar stjórnvöld eru eins og vindhani, snúast bara í hringi eða eru sífellt að gefa eftir, er ekki trúverðugur. Þess vegna held ég að það væri sniðugt fyrir stjórnvöld að velta fyrir sér hvort það sé ekki hreinlega tækifærið núna til að sýna á ný þá staðfestu og þann trúverðugleika sem lagt var af stað með í þessu máli, losun fjármagnshafta, og hverfa til þeirrar stefnu sem tekin var í upphafi. Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvort það er of seint. Ég held ekki. Ég held að það sé alveg eins hægt að bjóða upp á það eins og þær tölur sem eru í því frumvarpi sem við ræðum hér.