149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:05]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir spurninguna. Þessi málflutningur ætti að vera okkur kunnugur. Við fengum ágætisæfingu í því að taka á slíkum málflutningi í hinu svokallaða Icesave-máli. Hvað þessi haftamál varðar hefur verið látið reyna á hér um bil alla anga þess og það hefur allt fallið á sama veg.

Ég er með það plagg hérna með mér og get sagt um mál sem hefur gengið til Hæstaréttar að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, tók á þessu og meginniðurstaðan var, með leyfi forseta:

„Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur lokið athugun á tveimur málum vegna kvartana varðandi íslenska löggjöf um eign á aflandskrónum. Lögin sem kvartanirnar snúa að eru liður í aðgerðum íslenskra stjórnvalda til að losa fjármagnshöft. ESA telur lögin vera í samræmi við EES-samninginn.“

Þetta skilur ekki eftir (Forseti hringir.) neitt svigrúm til túlkunar og réttarfarsleg staða okkar er bara býsna góð í þessum efnum.