149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað er um að vera? Það er eitt af því sem við höfum spurt um. Við höfum líka spurt efnislegra spurninga um innihald frumvarpsins og nefndarálitsins. Vera kann að við fáum svör við því á eftir er næsti ræðumaður kemur í ræðustól, hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Það er þó ekki alveg öruggt, því miður.

Auðvitað söknum við þess að fulltrúar þeirra flokka sem virðast vilja keyra málið í gegn komi hingað og rökstyðji hvers vegna. Við höfum farið vel yfir okkar sýn og þær áhyggjur sem við höfum af málinu og það sem við teljum illásættanlegt, þ.e. að ekki sé gengin ýtrasta leið þegar kemur að því að fá hvað best verð fyrir þessar eignir.

Hér hafa verið nefndar háar tölur sem geta verið í húfi. Hv. þingmaður gæti mögulega farið fyrir okkur yfir þau verkefni sem hafa komið inn á borð þeirra nefnda sem hún situr í, hvort sem það er tengt velferð eða menntamálum og öðru slíku þar sem að sjálfsögðu vantar fjármuni. Þess vegna er óskiljanlegt að þingmenn hafi komið í andsvör, fulltrúi Viðreisnar, og sagt að við þyrftum ekkert í rauninni á þessu að halda. Auðvitað þurfum við öll á þessum peningum að halda. Við getum notað þær krónur í mörg mjög brýn verkefni.

Það er svolítið sérstakt, myndi ég segja, í miðri kjarabaráttu þar sem verið er að óska eftir ákveðnum framlögum frá ríkinu, að senda þau skilaboð út þegar ríkisvaldið segir að meira verði ekki gert gagnvart verkalýðshreyfingunni og á sama tíma er í rauninni verið að setja frá sér marga milljarða, mögulega tugi milljarða, sem gætu nýst í einhvers konar einskiptisaðgerðir til að liðka fyrir málum.