149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:01]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef í þessum ræðustól af öðru tilefni hælt hv. þingmanni sérstaklega fyrir það sem hann áorkaði sem forsætisráðherra á sínum tíma. Ég skil hins vegar ekki, og hv. þingmaður verður bara að umbera það, hvernig hann getur komist hjá því að sjá að við erum núna að taka eitt af lokaskrefunum sem voru markmið hv. þingmanns sem forsætisráðherra, að losa okkur úr fjármagnshöftunum. Við verðum að gera það. Ég segi bara: Það á enginn í þessum þingsal að vera glaðari, en í staðinn hefur hv. þingmaður allt á hornum sér og spyr um það af hverju hafi orðið pólitískar breytingar.

Það er auðvitað þannig að rökin fyrir fjármagnshöftunum voru fordæmalausar, efnahagslegar aðstæður sem fáar þjóðir hafa kynnst, þær voru forsendur og réttlætingin fyrir fjármagnshöftunum á sínum tíma. Ég trúi ekki að einhver í þessum þingsal ætli að færa rök fyrir því, láta sér detta það í hug, að þær forsendur séu ekki úr gildi fallnar eftir sjö eða átta ára samfelldan hagvöxt, þegar við horfum á það að ytri staða þjóðarbúsins hefur aldrei í sögunni, (Forseti hringir.) hv. þingmaður, verið hagstæðari.

Af hverju (Forseti hringir.) þingmaðurinn skilur ekki að þær forsendur sem lágu að baki fjármagnshöftunum eru fallnar úr gildi veit ég ekki. (Forseti hringir.) Réttlæting okkar fyrir því að halda hér (Forseti hringir.) fjármagni inni — sem við eigum ekki, við eigum ekki fjármagnið, við eigum ekki þessa fjármuni — það er engin réttlæting lengur (Forseti hringir.) fyrir því.