149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:09]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að fulltrúi Miðflokksins spyrji þeirra spurninga sem hv. þingmaður varpaði fram á fundi efnahags- og viðskiptanefndar á eftir. Ég hélt að vísu og mér fannst einhvern veginn eins og flestir þingmenn sem höfðu tekið til máls áttuðu sig ekki á því af hverju 26. febrúar skipti svona miklu máli. Ég var að reyna að skýra það út í ræðunni áðan. Ég held að það hafi verið nýtt fyrir suma þingmenn, a.m.k. þá sem tóku þátt í umræðunni án þess að lesa einu sinni greinargerð frumvarpsins. En látum það liggja á milli hluta.

Afnámsferlið hefur gengið hnökralaust fyrir sig. Og eins og ég sagði áðan hefur staða efnahagsmála líklegast aldrei verið betri en núna þótt hún sé viðkvæm. Það eru rauð merki á lofti, ekki á gjaldeyrismarkaði, heldur innan lands í efnahagsmálum. Greiðslujöfnuðurinn er orðinn sjálfbær. Erlend staða þjóðarbúsins er sterkari en nokkru sinni fyrr. Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað úr 90% í 30% af landsframleiðslu. Gjaldeyrisforði Seðlabankans er 26% af landsframleiðslu og að verulegum hluta fjármagnaður hér innan lands. Eftirstöðvar aflandskróna eru 3,1% af landsframleiðslu. Þetta er árangurinn.

Með öðrum orðum: Þær grundvallarforsendur sem lágu að baki því að halda aflandskrónueigendum inni í höftum eru ekki lengur fyrir hendi. Þær eru ekki lengur fyrir hendi. (Forseti hringir.) Þess vegna erum við að stíga eitt af lokaskrefum í afnámi hafta með þessu frumvarpi. Ég vona að hv. þingmenn Miðflokksins verði bara samferða okkur hinum í því verkefni.